Hópur íbúa Reykhólahrepps telur nýju leiðina góða málamiðlun

Reykhólar.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps telur að ný tillaga um Vestfjarðaveg í gegnum Reykhóla gæti verið forsenda sátta og tafarlausra framkvæmda. Norska ráðgjafafyrirtækið, Multiconsult gerði tillögu að nýrri veglínu meðfram Reykhólum og á brú að mynni Þorskafjarðar. Hópur íbúa í Reykhólahreppi telur að sú leið, svokölluð R-leið gæti verið góð málamiðlun og sé í raun hagkvæmur kostur með tilliti til kostnaðar, samfélags- og umhverfismála.

Álit þeirra byggist á því að þessi leið yrði láglendisvegur meðfram ströndinni, ný brú yrði nægðilega há fyrir smærri skip og þangskurðarpramma og tryggði jafnframt vatnaskipti að fullu. Þá er talið að umhverfisáhrifin yrðu mun minni en af Þ-H veglínunni um Teigsskóg og umhverfismat myndi ekki seinka framkvæmdum. Þar að auki fellur þessi kostur vel inn í skipulagsferlið sem þegar er hafið svo tafir yrðu ekki vegna þess.

Að mati Multiconsult er kostnaður við R leiðina sambærilegur við þá veglínu (Þ-H), sem Vegagerðin hefur valið um sveitina, þó Vegagerðin sé ekki sammála því mati eins og kemur fram í fyrri tilkynningu frá þeim.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps og Multiconsult telja þó að hægt yrði að hefjast handa strax við uppbyggingu, þannig að samfélagsávinningur yrði mikill og hægt yrði að ljúka skipulagi og framkvæmdum á um þremur til fjórum árum, frá því að hafist yrði handa. Þjóðleið framhjá Reykhólum myndi ótvírætt styrkja búsetu þar, sem og verslun og veitingaþjónustu. Þannig fengist mun betri þjónusta við bæði heimamenn og vegfarendur og ekki síst að vetrarlagi, sem er ákaflega mikilvægt með vaxandi umferð sem mun fylgja betri samgöngum.

Þá er ekki síður mikilvægt að með því að fara að ráðum Multiconsult yrði komist hjá því að spilla ósnortnu svæði og landslagsheild við Teigsskóg og munna Gufufjarðar- og Djúpafjarðar. Sú leið myndi því án efa vera sú sáttaleið sem leitað hefur verið eftir. Mikil náttúrufegurð er á þessu svæði og ef áhersla er lögð á fallega hönnun nýrrar brúar yfir Þorskafjörð yrði hún einnig aðdráttarafl fyrir ferðafólk sem sækjast eftir upplifun af svæðinu.

Þá kemur fram hjá norsku ráðgjöfunum að stytting á núverandi vegi yrðu rúmlega 17 km og aksturstími myndi styttast um 36 mínútur frá því sem nú er.

Í skýrslunni kemur fram samanburður á kostnaði og tímasparnaði með mismunandi vegaleiðum. Þá kemur fram að nýja veglínan um Reykhóla, R-leið, myndi kosta um 6,89 milljarða króna og stytting aksturstíma um Suðurfirðina yrðu 36 mínútur.
Veglínan um Teigsskóg eða svokölluð Þ-H leið, myndi kosta um 6,58 milljarða króna og stytta aksturstíma um Suðurfirðina um 38 mínútur.
Veglína með göngum, svokölluð D-2 leið og stytting gangna úr 4,5 km í 3,1 km myndu kosta um 9,24 milljarða króna og stytta aksturstíma um 36 mínútur.
Veglína I um Þorskafjörð, svokölluð I-leið, myndi kosta um 10 milljarða króna og aksturstíminn myndi styttast um 38 mínútur.

Vegagerðin hefur tilkynnt að ef sveitarstjórn velji að fara að ráðum Multiconsult muni hún taka þann kost til frekari skoðunar og að frumathugun á þeim valkosti gæti legið fyrir síðla hausts 2018.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA