Hlaut heiðursverðlaun Sambandslýðveldis Þýskalands

Þorsteinn Jóhannesson og sendiherra Þýskalands við heiðursverðlauna afhendingu fyrr á þessu ári.

Sendiherra Þýskalands á Íslandi, Herbert Beck, færði á dögunum Þorsteini Jóhannessyni skurðlækni, heiðursverðlaun Sambandslýðveldis Þýskalands fyrir hönd forseta Þýskalands. Heiðursverðlaunin hlaut Þorsteinn fyrir starf sitt sem ræðismaður Þýskalands á Ísafirði síðastliðinn 25 ár.

Herbert Beck sagði í samtali við blaðamann að athöfnin hafi verið einkar gleðileg og að Þorsteinn sé vel að heiðrinum kominn. „Þorsteinn hefur verið ræðismaður síðan árið 1993 en hann hafði tengsl fyrir þann tíma við Þýskaland. Hann sérhæfði sig þar í læknanámi sínu á sínum tíma og hann sagði mér við athöfnina í gær að starf hans sem ræðismaður hefði verið góð leið til að gefa eitthvað tilbaka til Þýskalands sem hafði reynst honum svo vel.“ segir Herbert Beck.

Herbert Beck segir að þetta séu fyrstu verðlaunin sem hann veiti síðan hann gerðist sendiherra fyrir tæpum þremur árum. „Þetta er líka mikill tími, 25 ár og það er ekki á hverjum degi sem forseti Þýskaland heiðrar fólk. Því má bæta við að Þorsteinn hafi verið duglegur í gegnum tíðina að kynna Ísafjörð og Vestfirði fyrir Þjóðverjum. Það má segja að Þorsteinn hafi með því komið Ísafirði og Vestfjörðum á kortið að vissu leyti. Hann bauð mér þangað og var virkilega gaman að koma þangað og sjá fegurðina, bæði í Ísafjarðarbæ sem og á öllu svæðinu.“ segir Herbert Beck að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA