Heima – myndlistarsýning Dagrúnar Matthíasdóttur

Edinborgarhúsið á Ísafirði.

Í dag, 1. júní kl. 17, opnar Dagrún Matthíasdóttir myndlistarsýningin HEIMA í Bryggjusal Edinborgarhússins á Ísafirði. Á sýningunni eru olíumálverk, grafíkverk og skissur en Dagrún tengir sýninguna við náttúrufegurðina og minningar að vestan með persónulegri nálgun. Olíumálverkin eru landslagsverk og notkun lita og pensilskriftar er frjálsleg í bland við nákvæmni í teikningu.

Dagrún Matthíasdóttir er myndlistakona frá Ísafirði, búsett á Akureyri. Dagrún er mjög virk í listalífinu norðan heiða og hefur haldið utan um sýningarhald í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri. Hún hefur einnig vakið athygli með listahópnum RÖSK með gjörningum, skúlptúrum og listviðburðum. Dagrún hefur haldið 20 einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum bæði hér heima og erlendis. Einnig hefur hún tekið þátt í listaverkefnum eins og Kunst I Natur í Noregi, gestadvöl í Ungverjalandi og á Máritíus í SA Afríku.

Dagrún lærði í fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri, Nútímafræði og kennslufræði í Háskólanum á Akureyri, með viðkomu í listfræði sem skiptinemi í Háskóla Íslands/LHÍ.

Sýningin stendur til 18.júní.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA