Hægt að kaupa fisk allan sólarhringinn á Tálknafirði

Litla fiskbúðin á Tálknafirði, þar er mikið og gott úrval af ferskum fiski.

Það hlýtur að vera gaman að búa á Tálknafirði. Í það minnsta hefur fólkið þar gaman að því að grínast og mögulega ljúga örlítið að saklausum blaðamönnum sem hringja til að forvitnast um fisk. BB sló á þráðinn til hans Þórs Magnússonar á Tálknafirði, sem er ekki bústólpi heldur stýrimaður á strandveiðum. Þór og kona hans Guðlaug Björnsdóttir selja fisk í opnu söluhúsi á Tálknafirði. Litla búðin er opin allan sólarhringinn og þar geta kaupendur valið á milli margra rétta og fisktegunda og borgað með því að leggja inn á hjónin eða setja pening í kassa á staðnum.

Þór var nýkominn í land þegar BB hringdi og tafði hann við löndunarkranann. Hann er á strandveiðum í sumar en veiðin hefur verið dræm og sjósókn erfið að hans sögn. „Það er betri fiskur í dag en hefur verið en þetta hefur verið tregt. Vestanáttin er búin að vera þrálát í allt sumar en þetta fer vonandi að lagast,“ segir stýrimaðurinn. Það gefur auga leið að fiskurinn sem hann veiðir fer beint í litlu fiskbúðina. Þetta er þriðja sumarið sem hjónin reka þessa óformlegu verslun en hvernig fengu þau þessa hugmynd? „Þetta kom til af því að ferðamenn og aðrir voru oft að spyrja um fisk og svona. Og þá fannst manni kjánalegt í sjávarplássi að það væri ekki hægt að fá fisk. Svo sat ég einu sinni fyrir framan grænmetisbás í Borgarfirði og datt þetta í hug, að selja fisk á sama hátt. En hugmyndin er samt miklu eldri,“ segir Þór.

Viðskiptavinirnir geta merkt við heimaland sitt og eins og sést koma þeir frá öllum heimshornum.

Þór og Guðlaug hafa aldrei lent í því að fólk borgi ekki fyrir vörurnar sem það kaupir, jafnvel þó það sé sjálfsafgreiðsla á staðnum. Allur fiskur sem er seldur kemur af svæðinu, þau gera signa fiskinn og fiskibollurnar sjálf og Guðlaug gerir fiskisósu sem hefur verið afar vinsæl. Þau fylgjast vel með litlu búðinni og fara nokkrum sinnum á dag til að bæta á vörur eða laga til, enda ber básinn þess merki, allur frágangur er til fyrirmyndar. Viðskiptavinirnir eru frá öllum heimshornum eins og sést á korti sem þau hafa hengt upp í búðinni og básinn er mikið myndaður segir Þór.

„Jæja, ég þarf að fara að landa,“ segir hann hress að lokum til að losna við blaðamann úr símanum og BB hvetur alla sem leið eiga um Tálknafjörð að líta við í þessari skemmtilegu sjálfsafgreiðslubúð.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA