Gífurlegt stuð á Götuveislunni á Flateyri um helgina

Þessi mynd frá Götuveislunni er hundgömul, en það breytir engu um það að stuðið á Flateyri verður gífurlegt um helgina.

Í kvöld, föstudaginn 22. júní verður Götuveislunni á Flateyri þjófstartað á hinum alrómaða skemmtistað allra landsmanna; Vagninum. Þá mun ofur-Sindri stíga á stokk með svaðalegar bargátur. Á laugardaginn er svo hin árlega Götuveisla á Flateyri haldin, þar sem þorpsbúar og aðrir gestir koma saman og fagna sumrinu.

Það verður nóg um að vera fyrir alla sem langar að gera sér glaðan dag og brjóta upp helgina. Þar má helst nefna furðufatahlaup, sundlaugapartý, hesta- og traktorferðir, kayakróður og síðast en ekki síst veisluna sjálfa um kvöldið þar sem kynnt verður upp í grillum í minningagarðinum. Hefð er fyrir því að gestir komi sjálfir með mat á grillið og snæði svo við ljúfa tóna söngkeppninnar, taki þátt í kókosbollukeppni og eigi almennt notalega kvöldstund með vinum og kunningjum.

Að lokum verður kveikt í brennuni áður en viljugir skella sér á ball á Vagninum þar sem hljómsveitin Sue stígur á stokk og fylgir mannskapnum inn í nóttina.

Kókosbolluát, söngvarakeppni og almennt húllum hæ er á sviðinu á bílnum hans Palla Önna.
Eftir skemmtiatriðin er venjan að kveikja í brennu og syngja frá sér ráð og rænu.

Það verður opið bæði á Vagninn og Bryggjukaffi alla helgina og því ekki úr vegi að taka rúntinn yfir í Önundarfjörð.

Dagskrá laugardagsins:

11:00 – Furðufatahlaup (mæting við sjoppu)
12:30 – Grænhöfði býður á Kayak
14:00 – Sveitastemning á flötinni við Símahostel, traktorferðir og hestar
15:00 – Sundlaugapartý, músík og froða í pottunum (samkvæmt gjaldskrá)
18:30 – Grillin tendruð í minningagarðinum
19:00 – Formleg dagskrá Götuveislunnar hefst
– Söngkeppni
– Kókosbollukeppni
– Andlitsmálning
– Verðlaunaafhending
– Brenna
00:00 – Ball á Vagninum, hljómsveitin Sue með flateyringnum
Ásgeiri Guðmundssyni
– 1500 krónur inn

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA