Geislinn kveður veturinn

Krakkarnir í Geislanum skemmtu sér í lokahófi. Mynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir.

Íþróttafélagið Geislinn í Strandabyggð stóð fyrir lokahófi mánudaginn 4. júní síðastliðinn. Var lokahófið hugsað sem nokkurskonar endapunktur fyrir þá sem hafa tekið þátt í starfinu síðastliðinn vetur áður en að sumarstarfið tekur við. Geislinn stóð af þessu tilefni fyrir útileikjum við íþróttamiðstöðina á Hólmavík og bauð svo öllum upp á ís. Veðrið var frábært þegar fréttaritari BB.is leit við í leikina og mikið fjör í hópnum.

Eiríkur Valdimarsson er í stjórn Geislans og einn skipuleggjanda viðburðarins. Hann segir starfið hafa verið skemmtilegt í vetur: „Þetta eru duglegir og skemmtilegir krakkar og það gengur allt mjög vel,“. Eiríkur sagði einnig gaman að sjá hve mörg börn á leikskólaaldri væru mætt í leikina. Þau Jóna Guðbjörg Ágústsdóttir og Friðrik Hreinn Sigurðsson hafa séð um leikskólaíþróttir í vetur og segir Eiríkur þær hafa verið vel heppnaðar.

Það er þó nóg fram undan í sumar hjá Geislanum þó að vetrarstarfinu sé lokið. Nú eru í gangi viðræður við þjálfara fyrir sumarið í fótbolta, fimleikum og sundi. Eiríkur segir næsta stóra viðburð vera Smábæjarleikana á Blönduósi sem eru 16.-17. júní, en þó nokkuð af krökkum frá Geislanum taka þátt í þeim. Ekki hafi Geislanum þó tekist að ná í lið einn og sér en hann mun taka þátt ásamt íþróttafélaginu Kormáki á Hvammstanga.

Dagrún

DEILA