Furðulegt háttalag osta á þingi

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.

Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum að ekkert varð af frumvarpi sem kvað á um hröðun tollkvóta fyrir upprunatengda osta til landsins. Var frumvarpið tekið fyrir á lokadögum þingsins og var niðurstaðan sú að fara eftir tollasamningi Íslands og ESB í þeirri mynd sem hann var gerður, í stað þess að hraða hluta hans. Virðist málið þvælast fyrir mörgum, enda er ferill þess um margt áhugaverður, og því eðlilegt að fara stuttlega yfir sögu þess, hvað frumvarpið hefði þýtt og hver staðan er í dag.

Stóraukinn tollkvóti næstu 4 ár
Haustið 2015 var skrifað undir samning Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur og ári síðar heimilaði Alþingi ríkisstjórn Íslands að staðfesta samninginn. Í honum felst veruleg aukning á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur til Íslands, sem og aukning á tollkvótum fyrir íslenskar landbúnaðarvörur til ESB. Kveður samningurinn á um að tollkvótarnir þrepist upp á 4 árum og að tollkvóti fyrir sérosta fara úr 20 tonnum í 230 tonn á þessum tíma.

Þegar búvörusamningar voru afgreiddir haustið 2016 sammæltist hins vegar meirihluti atvinnuveganefndar um það við ráðherra að hraða innleiðingu tollkvóta fyrir sérosta, þannig að hún kæmi öll til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma samningsins í stað þess að aukast í þrepum á 4 árum. Samhliða var því beint til ráðherra að aðgangsheimildum á innri mark¬að Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir yrði einnig hraðað eins og mögulegt er enda byggjast slík ákvæði á gagnkvæmum aðgangsheimildum.

Hinn augljósi forsendubrestur málsins
Frá því að þetta samkomulag var gert haustið 2016 hefur hins vegar enginn tekið það upp við ESB að hraða aðgangsheimildum fyrir mjólkurvörur í þá áttina. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Í apríl sl. fór af stað umræða um að þessi hröðun á tollkvóta hingað til lands væri ekki komin í gegn og töldu sumir að hér væri um mistök að ræða. Lagði landbúnaðarráðherra fram frumvarp um breytingu á tollalögum í kjölfarið. Var strax bent á þann forsendubrest að þar sem ekki hefði verið unnið að því að hraða aðgangsheimildum fyrir íslenskar mjólkurafurðir inná innri markað ESB, líkt og samkomulagið hljóðaði uppá, væru litlar forsendur fyrir því að hraða innleiðingu tollkvóta hingað til lands.

Þó svo að hinar gagnkvæmu aðgangsheimildir séu lykilatriðið í þessu máli þá eru önnur atriði sem einnig er vert að vekja athygli á. Ef frumvarpið hefði náð fram að ganga hefði tollkvóti umræddra osta 11faldast á einu bretti í stað þess að þrepast upp. Sérostaframleiðsla hér á landi (desert- og mygluostar, rjómaostar og aðrir ostar utan verðlagsnefndar) er 240 tonn á ári og því erum við að tala um 95% af því magni. Það má því teljast nokkuð eðlileg krafa að íslenskur landbúnaður og íslensk matvælafyrirtæki fái þann tíma sem samið var um í upphafi til að aðlagast stórbreyttu samkeppnisumhverfi. Eins er ljóst á áliti þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar, sem lagði til hröðunina, að nefndin taldi að einungis væri um að ræða osta sem ekki eru framleiddir hér á landi og því ekki í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Reyndist það ekki rétt þar sem þarna eru líka hollenskir Gouda- og Edam-ostar sem eru sambærilegir við mest seldu brauðostana hér á landi. Umræddar vörur eru því vissulega í samkeppni við hliðstæðar vörur sem framleiddar eru hérlendis.

Tollkvótinn er að margfaldast
Þrátt fyrir að þetta frumvarp hafi ekki náð fram að ganga þá hefur það engin áhrif á fyrirliggjandi samning milli Íslands og ESB. Eftir sem áður er tollkvóti fyrir sérosta að aukast verulega eða um 45-55 tonn á ári og heildartollkvóti verður 230 tonn þegar samningurinn tekur fullt gildi, árið 2021. Eins eru reyndar tollkvótar fyrir venjulega osta að fara úr 80 tonnum í 380 á þessum 4 árum.

Stundum er því fleygt fram að íslenskur landbúnaður sé pólitísk ákvörðun. Það er mikið til í því þar sem ákvarðanir stjórnvalda geta haft mikil áhrif á starfsumhverfi bænda hverju sinni. Það er síður en svo sjálfsagt eða auðvelt að stunda landbúnað á 66. breiddargráðu. Því er afar mikilvægt í þeim málum sem snerta landbúnaðinn -sem og öðrum- að skoða málin frá öllum hliðum og meta hvort og á hvaða hátt skuli vinna að þeim. Ostarnir virðast kannski lítilvæglegir í hugum einhverra en þegar nánar er skoðað hefði þessi mikla hröðun getað haft mikil neikvæð áhrif á matvælaframleiðslu hérlendis og þá sérstaklega í ljósi þess að ekki hefur fengist hröðun á aðgangsheimildum fyrir mjólkurvörur út til ESB á móti.

Ég fagna því að þingmenn hafi ekki samþykkt þessa hröðun og tel ég það í raun einu réttu niðurstöðuna miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Á Alþingi sem og annars staðar á auðvitað að leggja áherslu á að gera hlutina rétt.

Margrét Gísladóttir

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda

DEILA