Forsetinn kemur siglandi með varðskipi á Hrafnseyri

Guðni Th. Forseti Íslands, kemur á Hrafnseyri á laugardag.

Það verður mikið um dýrðir á Hrafnseyri á laugardaginn 16. júní, þegar sjálfur forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson, mætir með varðskipi til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Af því tilefni mun Guðni meðal annars flytja hátíðarræðu og leggja blómsveig að minningarsteini Jóns Sigurðssonar.
Guðni mun einnig horfa á knattspyrnuleik Íslands og Argentínu frá heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Leikurinn verður sýndur í tjaldi á stórum skjá á Hrafnseyri og forsetinn mun vera þar ásamt hátíðargestum.

Þá er einnig á dagskránni frumflutningur tónverksins BLAKTA, eftir Halldór Smárason tónskáld og útskrift hjá vestfirskum háskólanemum. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir myndlistakona opnar sýningu sumarsins á Hrafnseyri og Einar K. Guðfinnsson, formaður afmælisnefndar fyrir aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands, kynnir dagskránna.
Það ætti enginn Vestfirðingur að láta þessa stóru hátíð fara fram hjá sér. Boðið verður upp á rútuferðir á milli Ísafjarðar og Hrafnseyrar, sem fer frá Háskólasetri Vestfjarða klukkan 9:30 að morgni 16. Júní og rútan stoppar nokkrum mínútum síðar við Hlíf, áður en haldið er áfram til Hrafnseyrar. Áhugasamir ættu að panta far á reception@uw.is eða í síma 450 3040

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Hrafnseyrar.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA