Fornleifauppgröftur í Ólafsdal

Mynd tekin 13. júní síðastliðinn, svæðið var opnað með gröfu, hreinsað og í ljós kom þessi fallegi skáli. Fornleifafræðingarnir á svæðinu voru í hálfgerðu minjalosti! Mynd: Facebook síða fornleifarannsókna í Ólafsdal.

Vorið 2017 fundust óvænt afar fornlegar rústir við fornleifaskráningu innarlega í Ólafsdal við Gilsfjörð. Þær hafa verið aldursgreindar til 9. eða 10. aldar. Í sumar hófst svo fornleifauppgröftur á staðnum og er vonast til að rannsóknir muni varpa ljósi á lífið í dalnum fljótlega eftir landnám. Ólafsdalur er annars þekktastur fyrir miklar og óvenjulegar minjar frá 19. og 20. öld, en þar var fyrsti búnaðarskóli landsins rekinn á árunum 1880-1907. Minjavernd fyrirhugar að endurreisa þar hús frá þeim tíma á næstu árum en Minjavernd hefur einnig hefur umsjón með menningarlandslagi í dalnum. Styrkur fékkst til verksins frá Fornminjasjóði en einnig styður Minjavernd veglega við verkið. Fornleifastofnun Íslands sér um rannsóknir á staðnum.

Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur var að störfum við fornleifarannsóknir í dalnum þegar blaðamaður BB heyrði í henni á dögunum. „Við höfum aðallega verið að grafa þennan stóra skála frá landnámsöld sem fannst óvænt fyrir ári síðan þegar við vorum að gera fornleifaskráningu. Við vorum sem sagt að skrá minjar fyrir Minja-vernd sem er að fara að byggja upp húsin frá tímum Landbúnaðarskólans. Þá fundum við bæjarstæði á loftmynd, svokallaða skálarúst og svo níu eða tíu aðrar rústir í kring. Við fundum sýni úr gólflagi sem var greint og reyndist vera frá 9. eða 10. öld.“

Birna segir að þau séu farin að skoða minjarnar betur núna og greinilegt sé að það hafi verið búið þarna í einhverja áratugi, því húsinu hefur verið breytt sem leiðir í ljós að þetta var lengri búseta en þau héldu í fyrstu. Hún segir að hópurinn eigi eftir að skoða gólfin og það sé mest spennandi. Vinnan hófst síðasta sumar en aðal vinnan núna í sumar. Unnið verður núna í þessari viku og næstu, en í heildina er reiknað með fjögurra vikna vinnu hvert sumar, þessi þrú ár sem verkið er talið taka.

Birna segir að Ólafsdalur sé þekktur minjastaður og einstakur. „Þarna eru minjar frá tímum landbúnaðarskólans og að bæta þessu við er frábært. Það var ganga í gær-kvöldi, við bjuggumst ekki við mörgum þar sem veðrið var leiðinlegt en það komu 70-80 manns og boðið var upp á vöfflur. Þetta var alveg frábært og rosa skemmtilegt að sýna fólki þetta.“ segir Birna að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA