Fjallahjólabraut á Ísafirði

Gullrillurnar hafa staðið fyrir þremur hjólaferðum í sumar. Markmiðið er að draga fólki út og minna það á hversu gaman það er að leika sér á hjóli. Hjólasportið og þá sérstaklega fjallahjólasportið er svo skemmtilegt því þar geta börn og fullorðnir hjólað saman og allir fengið æfingu út úr samverunni.

Fyrsta hjólaferð Gullrillana var tengd við Hreyfivikuna, þá komu rúmlega 20 manns. Eitthvað færri hafa mætt í hinar tvær sem haldnar hafa verið en alltaf koma þó einhverjir nýjir. „Eftir að snjóa leysti þá höfum við aðalega verið að hjóla upp skíðaveginn, niður Eyrarhlíðina og þverað yfir í Hnífana  sem er orðið ævintýralegt hjólaland og frábært útivistarsvæði,“ sagði talskona Gullrillanna í samtali við BB.

Gullrillurnar buðu 12 ára og eldri með sér í fjallahjólaferð. Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir.

Það er atorkusamur hópur ásamt brautryðjandanum Óliver Hilmarssyni sem hefur staðið í því síðastliðin tvö sumur að búa til hjólabraut sem nær frá Breiðadalsheiði og alla leið niður í skóginn fyrir neðan Hnífana.

Það er töluverð pressa að koma svæðinu í besta mögulega ástand því núna í sumar verður haldið hjólamót í samstarfi við Enduro-Ísland og Hlaupahátíðina. Á mótinu verður keppt í hraða niður brautina. Nú þegar hafa 70 manns skráð sig en einungis 100 pláss eru í keppninni. Hér er hægt að skrá sig til keppni á heimasíðu Hlaupahátíðarinnar  https://hlaupahatid.is/ og á http://www.enduroiceland.com/

Fjallahjólasportið á Ísafirði er ungt en hér eru fullt af tækifærum til þess að gera bæinn að algjörri fjallahjólaparadís. Hjólabrautin er með sína eigin Facebook síðu, þar sem fylgjast má með framvindu og framkvæmdum í brautinni auk þess að vera samræðuvettvangur vestfirskra fjallhjólafólks. https://www.facebook.com/groups/915038788557425/

Ingimar Aron

DEILA