Fiskvinnslan Íslandssaga hættir beitningu í landi

Fisk­vinnsl­an Íslands­saga á Suður­eyri sagði upp 10 beitn­inga­mönn­um um mánaðamót.   Fyr­ir­tækið mun vél­beita á sjó í staðinn. Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að hækkun á veiðigjöldum hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.

Óðinn segir í samtali við BB að ekki sé útlit fyrir að breyting verði á veiðigjöldum á næstu mánuðum. „Miðað við síðustu fréttir frá Alþingi þá er þetta ekkert að fara að breytast. Það kostar bara of mikið að vera að beita í landi. Þetta hefur verið þróunin víða, að fara í bátana. Við höfum verið á eftir í því en við höfum talið að hafa ávinning að beita í landi. Við höfum fengið afslátt af kvótanum með því að beita í landi, en nú er það hætt, þannig að sá ávinningur er ekki til staðar lengur.“

Óðinn segir að fyrirtækið geti ekki beðið eftir að stjórnvöld breyti einhverju er varðar veiðigjöldin. „Það keppist hver um annar þverann að lofa því að veiðigjöldin breytist í haust. En við breytum ekki okkar ákvörðun. Við sögðum upp fólki 1. júní síðastliðinn. Fólk er með misjafnlega langan uppsagnarfrest, frá einum upp í 5 mánuði, þannig að þessar breytingar koma væntanlega til framkvæmda á nýju kvótaári.“

Aðspurður segir Óðinn að jafnvel verði hægt að hjálpa fólki með að fá önnur störf. Það sé þó óvíst ennþá og að það sé liður í öðru sem fyrirtækið sé að spá og vildi hann ekki tjá sig frekar um málið að sinni.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA