Ferðast um Ísland á rafmagnsbifhjóli

Uwe Reimann kom við hjá Dynjanda á ferð sinni um Vestfirði. Mynd: Uwe Reimann.

Þjóðverjinn Uwe Reimann fer þessa dagana fyrstur manna á rafmagnsbifhjóli í kringum Ísland. Ferðin hófst er hann kom með Norrænu til Íslands þann 5. júní síðastliðinn og yfirgefur hann landið aftur þann 21. júní næstkomandi. Uwe sagði blaðamanni BB að þetta væri langt frá því í fyrsta sinn sem hann kemur til Ísland en hann hefur komið yfir 20 sinnum hingað. En þetta er þó í fyrsta sinn sem hann ferðast um landið á bifhjóli.

„Þetta er í fyrsta sinn sem farið er hringinn í kringum eyjuna á rafmagnsbifhjóli. Ég fer þó ekki bara hinn týpíska hring um landið, heldur fer ég líka smá útúrdúra, hitt hefði verið frekar leiðinlegt því ég hef komið hingað svo oft. Ég fór til dæmis að Kára-hnjúkavirkjun aðallega til að taka myndir þar af hjólinu og virkjuninni. Það eru svolítið skemmtilegar andstæður, þetta umhverfisvæna hjól og svo virkjunin sem ég leyfi mér að efast um að sé mjög umhverfisvæn. Að minnsta kosti má setja spurningamerki við hana þegar maður leiðir hugann að því að samkvæmt spám um hnattræna hlýnun þá munu jöklar þessa lands hverfa. Og þegar þeir hverfa þá hverfur áin sem nú er virkjuð. Það ætti mikið frekar að nýta jarðvarmann til að skapa orku.“ segir Uwe.

Uwe fór hring um Reykjanesi á leið sinni, einnig kom hann við í Hraunfossum þar sem hann varð næstum rafmagnslaus. Svo gerði hann sér ferð hingað á Vestfirði. Hann kom til Brjánslækjar með ferjunni Baldri, keyrði til Patreksfjarðar þar sem hann hlóð hjólið. Hélt svo ferð sinni áfram í Bíldudal og að Dynjanda. Hann lauk svo þessum Vestfjarðahring sínum á viðkomu í Flókalundi þar sem hann fékk gistingu.

Uwe hafði nú þegar keyrt yfir 2000 km um Ísland á bifhjólinu þegar blaðamaður BB hitti hann á Patreksfirði á dögunum. Hann mælir ekki með þessum ferðamáta á Íslandi og segir að eitt helsta markmiðið sé að komast heill á húfi heim til Þýskalands. Meðalferðalengd hans í ferðinni milli staða er 230 km og lengsta ferðin 320 km. Frá Vestfjörðum var ferðinni heitið til Akureyrar þar sem Uwe var boðið að vera viðstaddur Bíladaga.

Bifhjólið sem Uwe ferðast á um er framleitt af fyrirtækinu Zero Motorcycles frá Bandaríkjunum. Mesti hraði sem hjólið nær er 153 km/klst og er það 185 kg að þyngd. Uwe segist geta keyrt það u.þ.b. 140 km á milli hleðslna og það taki átta til níu klukkustundir að hlaða það að fullu en hægt sé að nota svokallað hraðhleðslu og tekur það um eina og hálfa klukkustund. Uwe segir að lokum að hjólið sé kraftmikið og nái 100 km hraða á klukkustund á 5,3 sekúndum frá kyrrstöðu. Til séu þó kraft-meiri rafmagnsbifhjól sem nái upp í þennan hraða á 3,3 sekúndum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA