Einlægni og innlifun stóðu upp úr á tónleikum Between Mountains

Ásrós og Katla heilluðu áhorfendur með frammistöðu sinni í Tjöruhúsinu. Mynd: Julie Gasiglia.

Vestfirska hljómsveitin Between Mountains hélt tónleika fyrir fullu húsi í Tjöruhúsinu á Ísafirði síðastliðið föstudagskvöld, þann15. júní. Gestir staðarins voru yfir sig hrifnir af þeim Ásrósu Helgu Guðmundsdóttur og Kötlu Vigdísi Vernharðsdóttur sem skipa hljómsveitina og voru þær stöllur klappaðar upp eftir að hafa lokið flutningi sínum.

Blaðamaður BB var meðal áhorfenda og heillaðist af einlægnum flutningi þeirra. Þær spiluðu fjölmörg lög og innlifun þeirra skilaði sér vel til áhorfenda sem var stór liður í hversu vel tónleikarnir heppnuðust. Gaman er að sjá hversu fjölhæfar stúlkurnar eru, en þær skipust reglulega á hljóðfærum og spiluðu á píanó, gítar, sílafón og harmonikku ásamt því að syngja eins og englar.

Húsfyllir var í Tjöruhúsinu á tónleikunum á frábærum tónleikum Between Mountains. Mynd: Julie Gasiglia.

Stúlkurnar, Ásrós, 17 ára frá Núpi í Dýrafirði og Katla, 16 ára, frá Suðureyri, byrjuðu að spila saman í febrúar á síðasta ári. Þær sigruðu Samvest sem er undankeppni Samfés og tóku í kjölfarið þátt í Músiktilraunum árið 2017 og sigruðu þá tónlistarhátíð einnig. Þær hlutu einnig titilinn „Bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018 síðastliðið vor en afar efnilegir listamenn voru tilnefndir í þeim flokki.

Between Mountains kom fram á Icelandic Airwaves á síðasta ári og var fjallað um í hinu virta tónlistartímariti Rolling Stones, og sagt að hljómsveitin hefði verið ein sú áhugaverðasta sem fram kom á hátíðinni það árið. Þær munu einnig koma fram á Icelandic Airwaves næskomandi vetur auk þess sem þær spiluðu á hátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði um síðastliðna páska.

Það er nóg að gera hjá Between Mountains því þær munu koma fram á Secret Solstice tónlistarhátíðinni sem haldin verður í Reykjavík dagana 21.-24. júní næstkomandi. Myndband við lag hljómsveitarinnar, “Into the Dark” var frumsýnt í janúar á þessu ári vakti strax mikla lukku en það er einmitt tekið upp á Vestfjörðum. Þess má geta að Ásrós og Katla stunda báðar nám við Menntaskólann á Ísafirði og Tónlistarskóla Ísafjarðar og gaman verður að fylgjast með þessum efnilegu Vestfirðingum í framtíðinni.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA