Efnilegt körfuboltafólk frá Vestra valið í landslið

Fjórir unglingar frá körfuknattleiksdeild Vestra voru valin í U15 og U16 landslið Körfuknattleikssambands Íslands fyrr á þessu ári. Í U15 hópnum voru það Helena Haraldsdóttir og Friðrik Heiðar Vignisson. Helena leikur með 9. og 10. flokki stúlkna en Friðrik spilar með 10. flokki drengja. Í U16 voru það tvíburarnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir. Þeir voru einnig í landsliðshópi U15 á síðasta ári. Í U15 hópnum eru tvö 9 manna lið en í U16 er eitt 12 manna lið. Öll koma þau frá Ísafirði nema Friðrik, sem býr Hólmavík. Ekkert virkt körfuknattleikslið er á Hólmavík en Friðrik hefur verið að æfa síðustu ár með Vestra eins mikið og hægt er. Hann er 15 ára og er að útskrifast úr Grunnskólanum á Hólmavík og ætlar svo að byrja í Menntaskólanum á Ísafirði í haust.

Hilmir og Hugi Hallgrímssynir frá Vestra eru núna í Finnlandi að keppa með U16.

Hilmir og Hugi mættu með U16 Norðurlandamót í Finnlandi í gær og spila sinn fyrsta leik á morgun við Finna, en þeir spila 5 leiki alls. Svo keppa þeir í Evrópukeppni FIBA í Bosníu seinna í sumar. Helena og Friðrik með U15 tóku þátt í alþjóðlegu móti 14.-18. júní og vann liðið hennar Helenu brons.

Vestri átti óvenju stóran og glæsilegan hóp leikmanna í æfingahópum Körfuknattleikssambands Íslands fyrir yngri landslið í fyrra, en 10 krakkar frá Vestra voru í æfingahópum og 4 af þeim, Hugi, Hilmir, Helena og Friðrik, voru valin í úrvalshópinn.

Birna Lárusdóttir, formaður í stjórn barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra segir að það hafi verið ákveðið markmið að fjölga krökkum sem fá tækifæri að spila í þessum liðum og að það hafi sannarlega gerst. Félagið er afar stolt af leikmönnum sínum.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA