Ályktun aðalfundar Kirkjugarðasambands Íslands

Saurbæjarkirkja á Rauðasandi.

Aðalfundur Kirkjugarðasambands Íslands, lýsir vonbrigðum yfir því að ekki er gert ráð fyrir leiðréttingu á fjárveitingum til kirkjugarða landsins í 5 ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Rekstur kirkjugarðanna hefur verið undirfjármagnaður undanfarin ár og ekki í samræmi við samning sem gerður var við ríkið árið 2005. Þessum fjárskorti hefur verið mætt með því að draga úr umhirðu garðanna og viðhaldi mannvirkja sem þeim tengjast og er nú svo komið að mannvirki liggja undir skemmdum og umhirðu legstaða er víða ábótavant.

Kirkjugarðarnir eru grafreitir allra landsmanna, óháð uppruna þeirra eða trúarbrögðum. Þeir eru minningarreitir um gengnar kynslóðir sem eftirlifendur hafa ávallt lagt áherslu á að annast um af ræktarsemi og alúð. Því er sárt að horfa upp á þessa mikilvægu reiti vanhirta vegna þess að ekki fæst fjármagn til að sinna umhirðu þeirra svo sómi sé að.

Samningurinn við ríkið átti að tryggja tekjur til að standa undir rekstri garðanna og lögbundnum skyldum þeirra. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 urðu kirkjugarðarnir, eins og fleiri stofnanir fyrir miklum niðurskurði, en í dag 10 árum síðar, hefur sú skerðing enn ekki enn verið leiðrétt. Samtals vantar 3,4 milljarða króna að nafnvirði upp á að staðið hafi verið við samninginn frá 2005. Gjaldalíkan samningsins skilar nú einungis 60% af þeim fjármunum sem þá var um samið.

Aðalfundur Kirkjugarðasambandsins skorar á stjórnvöld að bæta fjárhagsstöðu kirkjugarða landsins þannig að hægt sé sinna grafreitum genginna kynslóða af þeirri virðingu og alúð sem þær verðskulda.

Vestmannaeyjum 9. júní 2018

Nánari upplýsingar:

Þórsteinn Ragnarsson

formaður Kirkjugarðasambands Íslands

  1. 893 6530 / 585 2704

netfang: thrag@kirkjugardara.is

DEILA