Aishling Muller býður upp á fría heilun með kristöllum á laugardaginn

Aishling Muller kemur upphaflega frá Írlandi en býr nú í Hnífsdal með unnusta sínum. Mynd: Ísabella Ósk Másdóttir.

Aishling Muller frá Írlandi hefur búið á Íslandi í þrjú ár en fluttist nýlega til Ísafjarðarbæjar og hefur komið sér fyrir í Hnífsdal ásamt unnusta sínum. Á laugardaginn verður hún með frían heilunarviðburð á heimili sínu þar sem fólki gefst kostur á að prófa 20 mínútna heilun.

Aishling kemur frá litlu plássi á Írlandi og heillast því meira af smábæjum heldur en borgarlífinu. Sjálf segir Aishling að henni finnist hún hafa fundið sig í Hnífsdal í töfrandi umhverfinu, fegurðinni, kyrrðinni og rónni. Hún segir að það verði spennandi að rannsaka orkuna frá Vestfirðingum.

Hún hefur starfað sem listamaður í gegnum tíðina og hefur tekið þátt í ýmsum listviðburðum. Til að mynda tekur hún þátt í listasýningunni The Factory sem er uppi núna í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík dagana 1. júní til 31. ágúst. Þar er gömlu Síldarverksmiðjunni gefið nýtt líf og finna má fjölbreytt úrval sjónlista. Til dæmis eru þar ljósmyndir, hljóðverk og myndbandslist eftir fjölmarga listamenn frá ýmsum löndum.

Aishling gekk sjálf í gegnum erfiðleika í lífinu sem leiddi hana á braut heilunar. Hún segir að sumir kalli hana Norn og hún kann ágætlega við það. Í dag býður hún upp á heilun og óhefðbundnar lækningar og notar kristalla sem meðal annars eiga að jafna orku líkamans. Aishling segir að heilun geti hentað flestum, til dæmis fólki sem vill vinna úr gömlum sárum á sálinni eða þeim sem hafa áhuga á andlegum hlutum.

Aishling notar kristalla til heilunar.

Aishling ætlar að bjóða fólki í fría kristallameðferð á laugardaginn milli 11 og 14 á heimili sínu að Stekkjargötu 31 í Hnífstal. Hún vill leggja áherslu á að fólk mæti með opinn huga fyrir meðferðinni og að þetta snúist í raun ekki um að lækna fólk heldur að fólki gefist tækifæri á hlusta á líkamann sinn, horfa inn á við og kanna hvort þar sé eitthvað hægt er að skoða, breyta og bæta.

Viðburðinn má skoða hér:
https://www.facebook.com/events/238701150221477/

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA