Afmælismót Golfklúbbs Ísafjarðar

Það eru margir flottir golfarar á Vestfjörðum. Mynd: Benedikt Hermannsson.

Golfklúbbur Ísafjarðar var stofnaður í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði 6. maí 1978 og er því fjörtíu ára gamall. Áður hafði Golfklúbbur verið stofnaður 1943 og þriggja holu velli fundinn staður á Skipeyri, þar til flugvallagerð hófst þar 1960.

Hvatamaður að stofnun klúbbsins fyrir fjörutíu árum síðan og fyrsti formaður var Margrét Árnadóttir, sem flutti hingað vegna starfa sinna, en golfið var hennar helsta áhugamál. Áhugi Ísfirðinga fyrir þessari nýju íþrótt lét ekki á sér standa og skrifuðu sextíu manns nöfn sín á stofnlistann.

Fyrsta málið var að finna golfvelli stað og var bæjarstjórn sent erindi þar sem sótt var um afnot af landi Búðar í Hnífsdal sem æfingasvæði. Bæjarstjórn samþykkti að leigja klúbbnum hluta af Búðartúni í Fremri Hnífsdal og var hafist handa við að rækta upp landið og útbúa golfvöll. Byrjað var á þremur holum með einni sæmilegri par fimm braut. Brautum var svo fjölgað fljótlega í sex. Klúbbfélagar keyptu bílskúr sem komið var fyrir sem klúbbhúsi.

Árið 1980 var byrjað að ræða við bæjaryfirvöld um draumastaðinn, Tungudal, undir golfvöll. Fjórum árum seinna var skrifað undir samkomulag við eiganda landsins, Bjarna Halldórsson, um samþykki fyrir golfvelli í landspildu Tungu. Sama ár var samþykkt í bæjarstjórn að úthluta Golfklúbbi Ísafjarðar landi í Tungudal undir golfvöll. Þar er nú níu holu völlur í glæsilegu grónu umhverfi með klúbbhúsi þar sem rekið er myndarlegt veitingahús á sumrin.

Í tilefni afmælisins verður haldið myndarlegt afmælismót á Tungudalsvelli laugardaginn 16. júní. Skráningu í mótið lýkur á hádegi fimmtudaginn 14. júní. Frekari tímasetning verður auglýst síðar en ræðst af þátttöku. Landsleikur Íslands og Argentínu verður sýndur í golfskálanum.

Um kvöldið verður síðan haldin hátíðarkvöldverður í sal Oddfellowa og mun hljómsveit Benna Sig. leika fyrir dansi.

Gunnar

DEILA