Á slóðum Heiðrúnarslyssins

Séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir hélt bænastund og minntist þeirra sem fórust. Við hlið hennar stendur Thorben J. Lund.

Varðskipið Týr lét úr höfn fra Bolungarvík í morgun, sjómannadaginn, þar sem haldið var að slysstað Heiðrúnar sem fórst 5.febrúar árið 1968 í aftakaveðri í Djúpinu. Fárviðri hafði skollið á með miklu frosti og þurfti að ferja báta frá Bolungarvík í betra lægi á Ísafirði. Mikil ísing og stórsjór komu í veg fyrir að hægt væri að nota siglingatæki, svo sem ratsjá, dýptamæli eða önnur staðsetningatæki. Varðskipið Óðinn var staddur í Ísfjarðadjúpi þessa örlagríku nótt og áttu varðskipsmenn fullt í fangi að fást við óveðrið. Heiðrúnin fórst út af Bjarnanúpi og miðað við reynslu varðskipsmanna mun veðrið einmitt hafa verið verst á þeim slóðum. Sex Bolvíkingar fórust með Heiðrúnu í þessu slysi.

Með um borð í Tý voru meðal annars ættingjar og vinir þeirra sem fórust með Heiðrúnu. Varðskipið var stöðvað yfir þeim stað sem flakið liggur en það var áður merkt með bauju, sem nú er horfin. Séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir hélt stutta bænastund og minntist þeirra sem fórust. Ljóst er að tilviljanir réðu því hverjir völdust til farar með Heiðrúnu í þessa afdrifaríku för; skipstjórinn hafði tafist á leið um borð og hafði báturinn þá slitnað frá þegar hann kom niður á höfn. Þrír ungir menn höfðu farið um borð rétt áður en skipið slitnaði frá og áttu í sjálfu sér ekki erindi í þessa för.

Aðstandendur þeirra sem létust á Heiðrúnu 1968

Miklir skipskaðar hafa orðið í Ísafjarðardjúpi í gegnum tíðina og margur sjómaðurinn endað í votri gröf. Miklar breytingar hafa þó orðið til batnaðar og má þar þakka betri skipakosti, aukinni fræðslu sjómanna og betra veðurfari. Mikil framfaraspor hafa átt sér stað í öryggismálum sjómanna, nokkuð sem miklu máli skiptir fyrir þjóð sem hefur byggt sinn efnahag á sjávarútvegi.

Gunnar

DEILA