Víkurlistinn í Súðavík birtir stefnuskrá

Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir.

Víkurlistinn í Súðavík, sem hefur listabókstafinn E, hefur birt stefnuskrá sína. Þau vilja leggja áherslu á atvinnu, samfélags- og samgöngumál. Meðal þess sem er á stefnuskránni er til dæmis að í atvinnumálum vilja þau halda áfram með hafna vinnu varðandi kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði, skoða áhrif hennar á umhverfið en leita jafnframt að fleiri hugmyndum varðandi atvinnuskapandi tækifæri. Þau vilja jafnframt beita sér fyrir því að fiskeldi og vinnsla rísi í Súðavík.

Varðandi samfélagsmál vilja þau auka þjónustu við fjölskyldur barna með sérþarfir, tryggja sjálfstæði aldraðra og fatlaðra og bæta upplýsingaflæði við nýbúa á skrifstofu hreppsins. Umhverfismálin eru mikilvæg öllum og Víkurlistinn vill að sveitarfélagið hafi frumkvæði að því að auðvelda íbúum flokkun og losun úrgangs. Þau vilja jafnframt efla umhverfisvitund almennings, sjá til þess að bærinn líti vel út og þau leggja áherslu á að grenjavinnsla á mink og ref sé í höndum fagaðila.

Þegar kemur að samgöngumálum leggur Víkurlistinn áherslu á nauðsyn Álftafjarðarganga og að þau verði staðsett þannig að þjóðvegur muni áfram liggja í gegnum Súðavík. Þau vilja semja við Vegagerðina um að hreppurinn sjái um snjómokstur milli byggðar og atvinnusvæða þegar Súðarvíkurhlíðin er lokuð og einnig að hreppurinn komist inn í 21. öldina varðandi rafmagn og fjarskiptamál.

Varðandi stjórnsýsluna þá ætlar Víkurlistinn að auka gagnsæi hennar og gera ákvörðunartökuna auðskiljanlegri fyrir íbúa. Þau vilja líka setja tímaramma á svör við erindum til sveitarstjórnar og sveitarstjóra og fylgja erindum eftir. Þau vilja einnig bæta upplýsingaflæði og aðgengi og auglýsa öll störf á vegum sveitarfélagsins og stofnana hreppsins. Viðhald á fasteignum sveitarfélagsins finnst þeim þurfa að bæta og á stefnuskránni er einnig áætlað að sett verði upp fjárheld girðing í kringum þorpið og að dregið verði úr umferðarhraða. Þau vilja einnig leita lausna þegar kemur að húsnæði fyrir fólk sem langar að flytja til Súðavíkur.

Bætt upplýsingaflæði er einnig sett á oddinn varðandi ferðafólk og Víkurlistinn vill koma á tengingu milli ferðaþjónustuaðila í hreppnum. Þá vilja þau skoða opnunartíma leikskólans og koma jafnvel betur til móts við foreldra. Barnafólk er líka í huga þeirra þegar kemur að íþrótta- og tómstundamálum en þá vilja þau skoða samstarf við önnur sveitarfélög varðandi frístundakort. Víkurlistinn vill svo stuðla að líkamlegri og andlegri heilsu íbúa Súðarvíkurhrepps.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA