Vesturverk talar meðvitað niður náttúru Stranda

Er þetta ljótt umhverfi og óaðgengileg eins og Vesturverk ýjar að. Þarna sjást Kálfatindar í gegnum klettagat á Ófeigsfjarðarheiði, rétt neðan við Drynjanda. Þessir mögnuðu tindar gefa Keopspíramídunum ekkert eftir en með nýnsnævi líkjast þeir helst Toblerone með flórsykri. Mynd. Tómas Guðbjartsson

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks sendir mér tóninn í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær undir fyrirsögninni Tómas tungulipri. Hún kemur víða við og segir mig fara með rangt mál án þess að færa fyrir því rök. Vel sótt málþing okkar Ólafs Más Björnssonar um ósnortin víðerndi á Ísafirði segir hún hafa verið illa auglýst þannig að ísfirskir ráðamenn sáu sér ekki fært að mæta. Samt var það auglýst með hálfsíðuauglýsingum í Fréttablaðinu og Mogganum auk þess sem við keyptum aulýsingu í Bæjarins besta á Ísafirði og dreifðum viðburðinum með löngum fyrirvara á Facebook. Það er rétt að Fossavatnsgangan var daginn eftir en sú frábæra keppni stöðvaði a.m.k. ekki Sjálfstæðisflokkinn á Ísafirði í að opna kosningaskrifstofu sína á nákvæmlega sama tíma. Tæplega voru ráðamenn allra flokka mættir þar og sem betur fer sáu margir aðrir Ísfirðingar sér fært að mæta á fyrirlesturinn. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Birna sendir mér tóninn en hún hefur verið í forsvari þeirra sem tala niður náttúrufegurðina upp af Ófeigsfirði á Ströndum og þá í hlutverki talsmanns framkvæmdaaðila virkjunarinnar, Vesturverks. Það gerði hún m.a. í aðsendri grein í Fréttablaðinu þann 21. mars sl. en þar sagði hún: “Sá hluti Ófeigsfjarðarheiði, þar sem stíflumannvirki Hvalárvirkjunar munu rísa, er dæmigerð vestfirsk háheiði. Landið er hrjóstrugt og gróðurlítið og veður þar oft válynd, jafnvel að sumri til. Varla má anda úr norðaustri án þess að allt fyllist af þoku. Svæðið er illa aðgengilegt göngufólki þar til í seinni hluta júlímánaðar því ár eru vatnsmiklar og jafnvel ófærar. Eftir miðjan ágúst er allra veðra von og gæta þarf sérstakrar varúðar á svæðinu. Það er því aðeins um einn mánuður að sumri sem er álitlegur til gönguferða”. Ég kannast ekki við þessar lýsingar Birnu og hef þó heimsótt þetta svæði alloft. Getur verið að Birna hafi aldrei komið þarna sjálf? Eða hefur hún líkt og Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku tjáði mér sl. sumar “aðeins séð fossana ofan af heiðinni” – hvaðan þeir sjást ekki, enda mun neðar í ánum þremur sem um ræðir. Sumar lýsingar Birnu eru beinlínis rangar, t.d. fullyrðing hennar um að ekki sé hægt að komast að fossunum nema í einn mánuð á ári. Birna er því miður ekki sú eina sem gert hefur lítið úr náttúrufegurð þessa stórkoslega svæðis. Það hefur einnig Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði gert, en hann lýsir þessum æskustöðvum sínum á einkar neikvæðan hátt í blaðaviðtali og segir þarna vera “þoku í 300 daga á ári”. Pétur er annar tveggja aðila sem selt hafa Vesturorku vatnsréttindi sín fyrir háar fjárhæðir en hinn er ítalskur baron, Felix Von Longo-Liebenstein, sem á Eyvindarfjörð. Það er því nokkuð ljóst að þeir sem hafa mestan fjárhagslegan ávinning af Hvalárvirkjun reyna allt til að gera lítið úr náttúrunni og tala hana niður – náttúru sem ekki getur varið sig árásum. Vissulega eru heiðarnar upp af Ófeigsfirði gróðurlitlar efst en neðar tekur við ríkulegur gróður og sérlega fallegar tjarnir. Fossarnir á svæðinu og klettum prýdd strandlengjan eru þó helstu gersemar svæðisins, steinsnar frá friðlandi Hornstranda og Drangaskörðum. Máli mínu til staðfestingar, en einnig til að afsanna kenningar Birnu og Vesturverks, þá hélt ég ásamt félaga mínum Ólafi Má Björnssyni og Ragnari Axelssyni ljósmyndara á fyrirhugað virkjanasvæði í byrjun vikunnar, nánar tilekið Annan í hvítasunnu. Þetta var 20. maí og gekk afar greiðlega að komast að fossunum sem skörtuðu sínu fegursta með miklu og blátæru vatni. Móðir náttúra tók okkur því með opnum örmum, eins og hún hefur reyndar gert oftsinnis áður á þessu magnaða svæði. Máli mínu til stuðnings fylgja þessari grein myndir sem ég tók úr þessari ferð okkar félaga. Þarna hefði Birna átt að vera – bæði til að upplifa fegurðina en líka til að sjá hversu rangt hún fór með í grein sinni í Fréttablaðinu. Sannleikurinn er nefnilega sagna bestur – einnig þegar mögnuð náttúra Vestfjarða á í hlut.

Tómas Guðbjartsson, höfundur er hjartaskurðlæknir og náttúruverndarsinni

DEILA