Vel sóttur íbúafundur Arctic Fish á Tálknafirði

Þorsteinn Másson hjá Arnarlaxi flutti erindi á íbúafundinum í gær.

Arctic Fish hélt opinn íbúafund á Tálknafirði í gær, fimmtudag, í seiðaeldisstöð fyrirtækisins í Norðurbotni. Fundurinn var vel sóttur, en um hundrað gestir mættu til fundar. Laxeldisfyrirtækið Arnarlax tók einnig þátt í fundinum með kynningu á umfangi laxeldis á sunnanverðum Vestfjörðum og því sem framundan er í framleiðslu á laxi. Starfsmaður Arnarlax, Þorsteinn Másson lýsti framleiðslunni í dag, sem er um 3.000 tonn í Patreksfirði, 3.000 tonn í Tálknafirði og 11.500 tonn í Arnarfirði. Um 18 starfsmenn vinna við seiðaeldi, 40 í sjóeldi, 45 í vinnslu og um 70 manns í þjónustu og verktöku. Verðmæti framleiðslu er um 14 milljarðar króna. Samkvæmt áætlun KPMG má reikna með að um 200+ starfi við tengd störf. Gert er ráð fyrir á næstunni um 10.000 tonna framleiðslu í Patreksfirði, 20.000 tonnum í Arnarfirði og um 10.000 tonnum í Tálknafirði. Verðmæti framleiðslunnar verður um 32 milljarðar króna. Áætlaður starfmannafjöldi er um 350+ og annað eins muni vinna við óbein störf.

Þetta er mikil umbreyting og stefnir í meiri verðmæti við eldi, en veiðar og vinnslu. Engum dylst sem kemur á sunnanverða Vestfjarða að mikil umskipti hafa orðið á samfélaginu til góðs, en helsta áskorun dagsins er skortur á íbúðarhúsnæði.

Sigurður Pétursson, hjá Arctic Fish, tók til máls og kynnti frummatsskýrslu félagsins fyrir Laxeldi í Arnarfirði. Fundargestir beindu spurningum til Sigurðar, en meðal spurninga gesta var hvernig eignarhaldi væri háttað á laxeldisfyrirtækjum á Vestfjörðum og hver væri hlutur Íslendinga. Sigurður upplýsti að fyrirtækin væru að mestu í erlendri eigu, en væru íslensk og ynnu samkvæmt íslenskum lögum og reglum, greiddu skatta og skyldur til íslensks samfélags. Hann benti á að leitað hafi verið til íslenskra fjárfesta í upphafi uppbyggingar en engin áhugi hafi verið fyrir hendi og áhættan hafi þótt of mikil. Hann benti einnig á að ekki aðeins kæmi fjármagn frá erlendum eigendum, heldur nauðsynleg þekking sem ekki væri til staðar hér á landi. Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru spurðir hvort þessir erlendu eigendur myndu einn daginn flytja framleiðsluna frá Vestfjörðum, eins og sumum fyndist hafa gerst með kvótann, en þeir bentu á að varla væri hægt að flytja burtu fjárfestingu í húsnæði og steypu, en fjárfesting í seiðaeldisstöðinni er upp á marga milljarða króna. Firðir Vestfjarða væru einnig forsenda eldisins og vandséð hvernig hægt væri að flytja eldiskvíar annað.

Rétt er að geta þess að höfuðstöðvar Arctic Fish eru á Ísafirði og Arnarlax á Bíldudal.

Gunnar

DEILA