Uppbygging þekkingarsamfélags í fiskeldi

Nanný Arna Guðmundsdóttir.

Það hefur verið baráttumál Í-listans að í Ísafjarðarbæ byggist upp fiskeldi sem uppfyllir ströngustu kröfur nútímans um umhverfisvöktun, búnað og framleiðslutækni. Samhliða því er mikilvægt að í sveitarfélaginu byggist upp öflugt rannsóknar- og þekkingarsamfélag sem tengist fiskeldi. Við höfum lagt áherslu á það í okkar málflutningi að Vestfirðir séu umhverfisvottaður landsfjórðungur og þannig viljum við hafa það áfram. Við trúum því að bæði náttúran og samfélagið eigi að njóta vafans og fá að vaxa og dafna saman. Með stöngu regluverki, rannsóknum og góðu eftirliti teljum við að þetta sé hægt. Sveitarfélög hafa ekki skipulagsvald yfir strandsvæðum og hafa því litla aðkomu að leyfisveitingum. En við höfum rödd og getum ákveðið með hvaða hætti við viljum að fiskeldi byggist upp.

Lærum af frændum okkar

Okkar trú er sú að vestfirskt fiskeldi sé að hefjast á réttum tíma, þegar stærstu fiskeldisþjóðir heims hafa gengið gegnum stóru vandamálin, misstigið sig og lært af reynslunni. Hér þurfa mistök annarra þjóða ekki að vera endurtekin. Við rötum réttu leiðina með því að vanda okkur, gera strangar kröfur til fyrirtækja og eiga í góðum samskiptum við frændur okkar í Færeyjum og Noregi sem hafa reynsluna og geta miðlað henni.

Allar helstu stofnanir heims sem fjalla um matvæli, mannfjöldaþróun og umhverfið eru sammála um að það þurfi að tvöfalda matvælaframleiðslu heimsins en á sama tíma minnka sótspor um helming. Þá er mikilvægt að við stöndum vörð um auðlindirnar innan okkar sveitarfélags og gerum það sem við getum til að framleiða umhverfisvænan mat. Til þess þurfum við öfluga vöktun og rannsóknir unnar af fólki sem er nálægt fiskeldinu og hefur þekkingu á staðháttum.

Heimastofnanir gegni lykilhlutverki

Nám í tengslum við fiskeldi og rannsóknir á því sviði á að vera í boði við Háskólasetur og Fræðslumiðstöð Vestfjarða til að byggja upp þekkingu og getu til að takast á við aukið eldi í sátt við umhverfið. Ísafjarðarbær á hlut að Náttúrustofu Vestfjarða. Þar er unnið gott og mikilvægt starf við að rannsaka og vakta náttúruna og nærumhverfið okkar og hefur Náttúrustofan unnið sér sess í sértækum rannsóknum vegna fiskeldis. Þetta þarf að styðja við í hvívetna því það er hagur okkar allra að sérfræðiþekking haldist á svæðinu því það laðar að fólk með sérþekkingu og fleiri verkefni.

Nanný Arna Guðmundsdóttir

Höfundur er í 3. sæti Í-listans

DEILA