Tveir frambjóðendur komnir fram í Reykhólahreppi

Reykhólar. Ljósmynd Árni Geirsson.

Í Reykhólahreppi verður persónukjör í komandi sveitarstjórnarkosningum. Á heimasíðu hreppsins kemur fram að tveir einstaklingar hafa stigið fram og lýst yfir áhuga sínum á að taka þátt í sveitarstjórnarstörfum. Þetta eru þau Ingimar Ingimarsson og Embla Dögg Bachman.

Embla segir að hún telji mikilvægt að rödd unga fólksins heyrist og að framtíð og möguleikar fyrir ungt fólk á Reykhólum séu fjölbreyttari svo fólk vilji setjast að á staðnum. Embla leggur áherslu á aukna atvinnumöguleika, að húsnæðisvandamál séu leyst, fjölbreytni í afþreyingu og íþróttum og betri samgöngur. Hún vill einnig hvetja til heilsueflandi samfélags og að íbúalýðræði á Reykhólum sé gott.

Ingimar Ingimarsson hefur einnig boðið fram krafta sína í sveitarstjórn, en hann sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu: „Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til setu í sveitarstjórn Reykhólahrepps. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sveitarstjórnarmálum, enda var ég starfandi í kringum bæjarstjórn Hafnarfjarðar í 16 ár, allt frá því að vera nefndarmaður, formaður nefnda og upp í það að sitja í bæjarstjórn. Nú er ég hinsvegar fluttur á Reykhóla og hef hugsað mér að að búa hér um ókomin ár. Ég gef því kost á mér í sveitarstjórn og vona að við getum nýtt krafta okkar saman til að gera gott samfélag enn betra.“

 

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA