Tómas fer í stríð en Árneshreppur sættist

Frá Árneshreppi. Mynd: Hrafn Jökulsson.

Þriðjudaginn 29. maí og miðvikudaginn 30. maí birtust tvær athyglisverðar fréttir á netmiðlum. Annarsvegar er þar um að ræða frétt á visi.is sem fjallar um sættir í Árneshreppi. Þar hafa íbúar komist að þeirri niðurstöðu að standa saman og vera sammála um að vera ósammála. Hinsvegar er það frétt á Fréttablaðið.is sem fjallar meðal annars um að Tómas læknir segi baráttuna fyrir verndun náttúrunnar í Árneshreppi vera stríð.

Það er athyglisvert að á meðan íbúar Árneshrepps segja samstöðu vera mikilvægari en allt annað, þá lýsir Tómas Guðbjartsson yfir stríði. Samhengið er vitaskuld það að Tómas ákvað að standa fyrir sérstakri sýningu á mynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð. Ágóði sýningarinnar rennur til: „styrktar verndun fossana upp af Ófeigsfirði.“ Hvernig sá styrkur verður afhentur eða hver nákvæmlega mun njóta hans, kemur ekki fram í fréttinni. En þar kemur hins vegar fram að Tómas telur myndina: „alveg eins getað heitið Læknir fer í stríð.“

Tómas segir enn fremur í samtali við Fréttablaðið: „Það er alveg hægt að segja að fyrir vestan hafi maður fengið vægast sagt óblíðar móttökur en það er samt ekkert sem hvorki ég né Óli áttum ekki von á.“ Hann segir að hann og Ólafur Már Björnsson hafi verið varaðir við Vestfirðingum, og þeir taki bara því sem að höndum ber og kveinki sér ekki.

Það er athyglisvert í þessu samhengi að lesa greinar fólks á Vestfjörðum*, sem hefur persónulega gefið Tómasi útskýringu á fjarveru sinni á fyrirlestri og myndasýningu, sem hann hélt á Ísafirði, daginn fyrir Fossavatnsgönguna. Greinar, sem fjalla að mati höfunda að mestu um að leiðrétta rangfærslur Tómasar eða þar sem fólkið svarar fyrir sig eða fjórðunginn þegar þeim þykir læknirinn vera komin aðeins fram yfir kurteisismörk. Þá eru ekki meðtaldir tölvupóstar eða skilaboð sem Tómas hefur sent einstaklingum á Vestfjörðum, þar sem mörgum hefur ofboðið, en hafa þó reynt að svara á yfirvegaðan hátt. Þetta samhengi er ekki tekið með í stríðsfrétt Fréttablaðsins um Tómas eða sem útskýringu á viðtökunum sem hann upplifir fyrir vestan.

Þá er athyglisvert að daginn áður en fréttin um styrktarsýningu Tómasar birtist á vef Fréttablaðsins, birtist á vef Vísis mynd af Evu Sigurbjörnsdóttur, oddvita Árneshrepps og Hrafni Jökulssyni í faðmlögum á flugvellinum á Gjögri. Sú grein er unnin uppúr frétt á Stöð 2 þar sem kemur fram: „Auðvitað er sáttarhugur í okkur,“ segir Eva og Hrafn bætir við: „Við erum bara gamlir vinir.“ „Og munum halda áfram að vera það. Við ætlum bara að vinna þessu sveitarfélagi til góða. Það er fyrst og fremst það sem við gerum,“ segir Eva og Hrafn tekur undir það.

Þau eru sammála um að vera ósammála um Hvalárvirkjun, það væri lítið fútt í lífinu ef fólk er sammála um allt, sögðu þau og hlógu. Með fréttinni fylgir líka mynd af hópi fólks frá skólaslitum Finnbogastaðaskóla, þar sem einn nemandi var útskrifaður en fullorðna fólkið brosir og heldur utan um hvort annað. Þetta eru þau Eva Sigurbjörnsdóttir, Hrafn Jökulsson, Vigdís Grímsdóttir, Hrefna Þorvaldsdóttir, Elín Agla Briem og Bjarnheiður Júlía Fossdal. Fyrir kosningar töldust margir þessara einstaklinga vera örgustu andstæðingar vegna virkjunarinnar. Eftir kosningar má velta fyrir sér hversu djúpt sá ágreiningur risti og hvort hann hafi mögulega verið stærri í fyrirsögnum landsmiðlana.

„Strandamenn eru vanir því að nota stundum stór orð. En þeir eru líka vanir því að standa saman. Og í litlu samfélagi eins og Árneshreppi stendur ekkert annað til boða heldur en að standa saman. Þó það sé ágreiningur um stór mál. Við munum vera hreppsnefnd allra í sveitinni, ekki bara þeirra sem kusu okkur. Þannig að ég vil meina að það mun gróa um heilt. Og við munum ganga saman þessa vegferð, þó að hún geti verið erfið. Við munum bara öll finna bestu lausnirnar. Ég er alveg sannfærð um það,“ sagði Eva við stöð 2.

Og Hrafn bætir við: „Og við virðum skoðanir annarra. Hljótum að gera það! Og öll dýrin í skóginum halda áfram að vera vinir, ætla ég rétt að vona.“

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

*Hlekkur 4: https://www.bb.is/2018/05/ad-tala-upp-samfelag/
*Hlekkur 5: https://www.bb.is/2018/05/tomas-tungulipri/
*Hlekkur 6: https://www.bb.is/2018/05/heidskirt-i-vestfirskri-umraedu-2/

DEILA