Þrír handhafar umhverfisvottunarinnar Bláfána á Vestfjörðum

Smábátahafnirnar á Patreksfirði, Bíldudal og á Suðureyri munu dagana 17. og 18. maí n.k. fá afhenta umhverfisvottunina Bláfánann. Á Patreksfirði verður Bláfánanum flaggað kl. 14:00 þann 17. maí og kl 16:00 á Bíldudal sama dag. Föstudaginn 18. maí kl 10:00 verður Bláfáninn svo dreginn að húni á Suðureyri. Suðureyri mun flagga Bláfánanum í sjöunda skipti, Patreksfjörður í það sjötta og Bíldudalur í fimmta sinn.

Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem veitt er smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjálfbærri sjávarferðamennsku (t.d. hvalaskoðunarbátum) fyrir árangursríkt starf í umhverfismálum. Meginmarkmið verkefnisins er að vernda lífríki haf- og strandsvæða, draga úr umhverfisáhrifum, bæta öryggi og efla umhverfisvitund. Bláfáninn er tákn um góða frammistöðu í umhverfismálum og bætir ímynd og ásýnd rekstraraðila þar sem hann blaktir við hún.

Til þess að fá leyfi til að flagga Bláfánanum þarf að senda inn umsókn og uppfylla strangar kröfur sem lúta að umhverfisstjórnun, öryggismálum og umhverfisfræðslu. Verkefnisstjóri Bláfánans á Íslandi metur umsóknina og aðstoðar umsækjendur í ferlinu, innlend dómnefnd fer í kjölfarið yfir umsóknina og sendir hana að lokum til alþjóðlegrar dómnefndar sem tekur ákvörðun um hvort að viðkomandi umsækjandi fái að flagga Bláfánanum.

Bláfánanum er flaggað víða um heim, m.a. á Spáni, Suður Afríku og í Mexíkó en árið 2017 var fánanum flaggað á 4.423 stöðum í 45 löndum. Umhverfisvottunin varð 30 ára á síðasta ári og er bæði virt og eftirsótt og margur ferðalangurinn þekkir merkið vel. Landvernd rekur verkefnið á Íslandi fyrir hönd alþjóðlegu samtakanna FEE (Foundation for Environmental Education) en handhafar Bláfánans á Íslandi eru fjórtán talsins og fer fjölgandi.

Ísland er umkringt hafi og byggir íslenskt samfélag að miklu leiti hag sinn á auðlindum hafsins og ferðaþjónustu og því mikilvægt að stuðla að aukinni umhverfisfræðslu til verndar hafinu en Bláfáninn er gott tæki fyrir sveitarfélög til þess að sinna því ábyrgðarhlutverki.

Ég óska íbúum Patreksfjarðar, Bíldudals og Suðureyrar til hamingju með árangurinn og býð ykkur velkomin á afhendingarnar á fimmtudag og föstudag. Einnig vil ég hvetja ykkur til þess að taka þátt í þeim viðburðum og verkefnum sem hafnirnar munu bjóða upp á í sumar.

Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir

Verkefnisstjóri Bláfánans á Íslandi

DEILA