Snýst ekki um að kjósa bæjarstjóra, heldur stefnu og sýn

Daníel Jakobsson.

BB fór á stúfana og spurði efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og bæjarstjóraefni, af hverju fólk ætti að kjósa það. Daníel Jakobsson er bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ og hans svar er á þessa leið:

„Þegar spurt er af hverju íbúar Ísafjarðarbæjar ættu að kjósa mig sem bæjarstjóra, þá er því fyrst að svara að kosningarnar snúast ekki um það að kjósa bæjarstjóra. Það er kosið um lista, hóp fólks, sem hefur lagt fram sína stefnu og sig sjálft til að vinna fyrir bæinn næstu fjögur árin. Hver verður bæjarstjóri er ekki aðalatriði, það eru margir sem geta sinnt því, sérstaklega ef stuðningur bæjarfulltrúa er virkur. Það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt fram mitt nafn er til að skýra áherslur okkar. Hinsvegar er það er ekki skilyrði fyrir samstarfi okkar við aðra í bæjarstjórn. Um þetta þarf væntanlega að semja þegar talið hefur verið upp úr kjörkössunum.

Hinsvegar ef ég yrði bæjarstjóri þá myndi ég leggja á það áherslu að vinna fyrir alla bæjarfulltrúa og bæjarbúa, ekki bara þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn. Þá er mikilvægt að vera aðgengilegur ekki bara í Skutulsfirði heldur í öllum hverfum bæjarins. Taka þátt í því sem er að gerast og ræða við fólk, hlusta á sjónamið allra. Bæjarstjóri er líka verkstjóri bæjarins og á að beita sér fyrir því að miðla málum og finna lausn sem allir geta staðið að. Mér var það mikið kappsmál í minni bæjarstjóratíð að meiri og minnihluti næðu saman um flesta hluti. Gott dæmi til að taka er sú staðreynd að fjárhagsáætlun bæjarins er þrisvar sinnum á því kjörtímabili samþykkt samhljóða. Það var almenn einkunn kjörtímabilsins 2010 – 2014 að samstarf allra bæjarfulltrúa hafi verið meira og betra en áður.

Einnig þarf að leggja aukna áherslu á að klára verkefni og koma öðrum í ferli. Það eru mörg verkefni sem ríkt hefur sátt um í bæjarstjórn en komast ekki í framkvæmd. Má þar nefna fjölnota íþróttahús, nýbygging á safnasvæði og stefnumörkun varðandi íþróttamannvirki. Þarna gegnir bæjarstjóri lykilhlutverki í að hreyfa mál áfram. Það er líka mikilvægt að þessi verkefni séu unnin fyrir opnum tjöldum og í samráði og á sama tíma sé formlegheita gætt svo stjórnsýslan sé gegnsæ.

Bæjarstjóri þarf líka að hafa metnað til að þróa bæinn okkar áfram og standa með íbúunum. Stefnu bæjarins þarf að fylgja eftir, kynna hana fyrir ráðamönnum, embættismönnum og öðrum. Það er gert með samtölum og rökfestu, ekki með upphrópunum og átökum. Það er sennilega brýnasta verkefni bæjarstjórans. Til dæmis að fylgja eftir uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðarbæ. Þar eru gríðarleg tækifæri sem við megum ekki láta fram hjá okkur fara. Bæjarstjóri gegnir þar lykilhlutverki í að tryggja að hagsmunir bæjarbúa séu hafðir að leiðarljósi.

Þar þarf líka að leggja meiri áherslu á vönduð vinnubrögð þannig að klúður eins og við fyrirhugaðan flutning leikskólans á Flateyri í grunnskólann, málefni skjalageymslu, íbúakönnun um sundlaug og taprekstur Byggðasafns Vestfjarða sem og framúrkeyrsla hjá Ísafjarðarbæ, endurtaki sig ekki.

Svo hlýtur það að vera krafa Ísfirðinga að eiga bæjarstjóra sem stendur í stafni stærsta sveitarfélags á Vestfjörðum og leiði byggðabáráttu Vesfjarða. Við hljótum öll að vera sammála um það.

Að lokum þarf bæjarstjóri að hlúa að vinnustaðnum Ísafjarðarbæ. Það er mikilvægt að starfsfólki líði vel í vinnunni sinni og að sveitarfélagið sé eftirsóknarverður vinnustaður. Á það þarf að leggja áherslu.

Áfram Ísafjarðarbær.“

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA