Syntu sig inn á AMÍ meistaramót

Í vikunni var haldið innanfélagsmót í sundi hjá sunddeild Ungmennafélags Bolungarvíkur. Þar gerðu fimm krakkar sér lítið fyrir og náðu lágmörkum fyrir aldursflokkameistaramót, sem haldið verður í Reykjavík í lok júní. Þeir krakkar, sem syntu svona stórkostlega, heita Arndís Magnúsdóttir, Eydís Birta Ingólfsdóttir, Ólöf María Guðmundsdóttir, Ingibjörg Anna Qi Skúladóttir og Sigurgeir Guðmundur Elvarsson. Að auki munu þau Agnes Eva Hjartardóttir, Margrét Gunnarsdóttir og Jórunn Inga Sigurgeirsdóttir keppa í boðsundi á AMÍ, svo Ungmennafélag Bolungarvíkur mun státa af átta einstaklingum á meistaramótinu.

„Krakkarnir sem æfa hjá okkur eru að standa sig rosalega vel,“ sagði Guðlaug Rós Hólmsteinsdóttir, yfirþjálfari sunddeildarinnar í samtali við bb.is. „Við vorum á Landsbankamóti í Keflavík um daginn með 23 krakka og þau voru öll að bæta sig, og sum allt að 40 sekúndum. Þannig að þau eru að bæta sig alveg rosalega.“

Í sunddeild Ungmennafélags Bolungarvíkur eru 57 iðkendur frá 6 ára aldri og upp í 17 ára. Félagarnir eru duglegir að taka þátt í keppnum og standa fyrir hinum ýmsu uppákomum, til dæmis fengu þau Hrafnhildi Lúthersdóttur, ólympíufara, í heimsókn í vetur. „Hrafnhildur kom til okkar í byrjun mars og það var gríðarleg stemmning hjá krökkunum því þau líta mikið upp til hennar. Hún var með þeim heilan dag og tók æfingu með þeim og daginn eftir vorum við með innanfélagsmót þannig að þau eru að standa sig mjög vel. Við tökum á móti öllum sem vilja æfa sund,“ sagði Guðlaug að lokum og það er gott að vita fyrir krakka í öðrum bæjarfélögum, þar sem ekki hafa verið sundæfingar á Ísafirði í nokkurn tíma vegna þjálfaraskorts.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA