Sunnukórinn heldur suður yfir heiðar

Um helgina ætlar Sunnukórinn frá Ísafirði að leggja land undir fót og skella sér suður til Reykjavíkur. „Við erum að fara að heimsækja kór sem heitir Söngfélagið góðir grannar,“ segir Dagný Arnalds, stjórnandi Sunnukórsins. „Þau heimsóttu okkur í fyrravor og nú ætlum við að endurgjalda heimsóknina og halda sameiginlega tónleika í Laugarneskirkju 5. maí.“
Fyrir ferðina æfði Sunnukórinn hin ýmsu lög sem tengjast veðrinu. „Þetta þema stendur okkur nærri, og er okkur Íslendingum mjög hugleikið svo það var ekki erfitt að finna lög,“ segir Dagný. „Við verðum líka með nokkur vestfirsk tónskáld í farteskinu og munum til dæmis syngja lag eftir Mugison, Jón Hallfreð og Villa Valla en við munum syngja lagið Ég er feimið fjall eftir hann. Þetta er vorferðin okkar, en það má búast við hinum ýmsu veðrum á tónleikunum,“ segir Dagný að lokum og hlær.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA