Stóru málin

Arna Lára Jónsdóttir.

Í-listinn óskar eftir áframhaldandi trausti til að vinna áfram með ykkar hag að leiðarljósi. Við erum sátt við þann árangur sem hefur náðst á kjörtímabilinu. Meginstef okkar er að hér sé gott að búa. Bætt lífsgæði skila farsælli framtíð. Aukin þjónusta og uppbygging eru grundvallaratriði.

Við horfum fram á bjartari tíma en við höfum gert í áratugi – okkur er að fjölga! Ný og fjölbreytt atvinnutækifæri eru í farvatninu og það er vaxandi eftirspurn eftir húsnæði. Undir það höfum við verið að búa okkur og það verður stóra verkefni næsta kjörtímabils.

Stór uppbyggingarverkefni eru í farvatninu sem við viljum fylgja eftir og klára. Bygging fjölbýlisbýlishúss við Sindragötu. Stækkun Eyrarskjóls, fjölgar leikskólaplássum og bætir aðstöðu starfsfólks. Bygging Hornstrandastofu í Neðstakaupstað, knattspyrnuhús og líkamsræktaraðstaða. Lenging Sundabakka mun gjörbylta allri aðstöðu hafnarinnar og færa hafsæknum fyrirtækjum í sveitarfélaginu gríðarleg tækifæri en lóðum þar hefur þegar verið úthlutað. Jákvæð samtöl við ríkisvaldið benda til að framkvæmdir við Sundabakka hefjist fljótlega.

Í-listinn er aflið sem hefur það á stefnuskrá að efla íbúalýðræði og íbúasamráð. Ekki af því að það hljómar fallega, heldur af því að það getur leitt til farsælli og betri ákvarðanatöku. Stór skref hafa verið stigin; með eflingu hverfaráða og stofnun öldunga- og ungmennaráðs. Í-listinn hlustar á raddir íbúanna og hefur kjark til að breyta ákvörðunum út frá þeim röddum.

Skólamál eru forgangsmál

Við viljum skólana okkar í fremstu röð og Grunnskólinn á Ísafirði hefur vakið aðdáun íslensks skólafólks fyrir starfsemi sína.

Það er forgangsmál að tengja saman fæðingarorlof og leikskólavist. Leikskólaplássum var verulega fjölgað með Tanga – við viljum gera betur. Stækkun Eyrarskjóls árið 2019 leiðir af sr frekari fjölgun leikskólaplássa í sveitarfélaginu á næstu árum. Með þessu getum við tekið yngri börn inn og brugðist við íbúafjölgun næstu ára.

Valkostirnir eru skýrir

Í-listinn setur ekki fram óraunhæf kosningaloforð sem fela í sér lækkun á tekjustofnum Ísafjarðarbæjar samhliða mikilli útgjaldaaukningu. Skattalækkanir draga úr tekjum sveitarfélagsins á tveimur vígstöðvum, því þær hafa einnig áhrif á framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Slík loforð eru því óraunhæf nema komi til þjónustuskerðingar og íbúar kalla eftir meiri og betri þjónustu, en ekki verri.

Í-listinn er ekki bundinn pólitískum öflum. Hann er sameiginlegt afl og breiðfylking sem allir eiga greiða aðkomu að. Í-listinn setur hagsmuni íbúa og samfélagsins í fyrsta sæti. Við teflum fram reynslumiklum bæjarstjóra sem setur samfélagið í fyrsta sæti og er óháður öllum öflum. Til að við fáum að njóta krafta hans er nauðsynlegt að Í-listinn fái góða kosningu á morgun.

Arna Lára Jónsdóttir

Höfundur er oddviti Í-listan

DEILA