Skjaldborgarhátíðin að vanda um hvítasunnuna

Það er líf og fjör á Skjaldborg.

Á dögunum undirritaði Orkubú Vestfjarða þriggja ára styrktarsamning við forsvarskonur Skjaldborgar, sem er hátíð íslenskra heimildamynda. „Það er ómetanlegt að fá langtímavilyrði fyrir stuðningi því mikil vinna fer í fjármögnun á hverju ári,“ segir Helga Rakel Rafnsdóttir, Skjaldborgarkona. Hún segir jafnframt að hátíðin sé án ágóða og mest af vinnu við hana sé unnin af sjálfboðaliðum svo stuðningurinn er afskaplega vel þeginn. „Við höfum líka fengið svona samning við Menningarráð Vestfjarða og Sóknaráætlun,“ sem eru góðar fréttir því hátíðin er mikil lyftistöng fyrir menningarlífið á Patreksfirði þar sem hún er haldin. Skjaldborgarhátíðin verður að venju haldin um hvítasunnuhelgina, 18.-21. maí á Patreksfirði. Í fréttatilkynningu segir: „Alls verða sýndar 18 nýjar og brakandi ferskar íslenskar heimildamyndir. Einnig verða kynnt 9 verk í vinnslu og er sá fjöldi heldur betur til marks um grósku í faginu. Í ár er danski klipparinn Niels Pagh Andersen heiðursgestur hátíðarinnar en hann hefur klippt yfir 250 kvikmyndir, flestar þeirra heimildamyndir. Má þar nefna margverðlaunaðar myndir á borð við The Act of Killing og The look of Silence eftir Joshua Openheimer og Three Rooms of Melancholia eftir Pirjo Honkasalo.

Tvenn verðlaun eru afhent á hátíðinni, annars vegar gamli góði Einarinn – áhorfendaverðlaun Skjaldborgar og hins vegar Ljóskastarinn – dómnefndarverðlaun hátíðarinnar. Í dómnefnd að þessu sinni verða Ragnar Bragason, leikstjóri, Yrsa Roca Fannberg, leikstjóri, og Elísabet Indra Ragnarsdóttir, tónlistarkona og fyrrum dagskrárgerðarkona á RUV, sem hefur komið víða við í íslensku menningarlífi og gerir enn.
Skjaldborg er ekki aðeins uppskeruhátíð íslenskrar heimildamyndagerðar heldur er hátíðin þekkt fyrir sérstaklega gott andrúmsloft og almenn skemmtilegheit á borð við plokkfisk í boði í kvenfélagsins, skrúðgöngu og limbókeppni. Í ár verður loka-atriði hátíðarinnar uppistand með Snjólaugu Lúðvíksdóttur og það er engin önnur en hin stórskemmtilega ábreiðusveit Bjartar Sveiflur sem leikur fyrir dansi á lokaballinu í Félagsheimili Patreksfirðinga á sunnudagskvöldinu.

Nánari upplýsingar má finna á Skjaldborgarsíðunni.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

DEILA