Skjaldborg haldin í tólfta sinn

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda var haldin í tólfta sinn um hvítasunnuhelgina. Átján íslenskar heimildamyndir voru frumsýndar og átta verk í vinnslu kynnt en færri myndir komust að en vildu. Heiðursgestur hátíðarinnar var danski klipparinn Niels Pagh Andersen og hélt hann svokallað masterclass á laugardagskvöldinu. Fyrr um daginn höfðu áhorfendur séð heimildamyndirnar The Act of Killing og The Look of Silence eftir bandaríska leikstjórann Joshua Oppenheimer en Niels klippti báðar myndirnar. Hátíðinni lauk formlega í gærkveldi en samkvæmt hefðinni gengu gestir hátíðarinnar fylktu liði í skrúðgöngu frá Skjaldborgarbíói í Félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni síðustu mynd og atkvæðagreiðslu. Verðlaunaafhending fór fram í Félagsheimilinu og hljómsveitin Bjartar sveiflur lék fyrir dansi á lokaballi hátíðarinnar.

Heimildamyndin Söngur Kanemu eftir Önnu Þóru Steinþórsdóttur hlaut bæði áhorfendaverðlaunin Einarinn og dómnefndarverðlaunin Ljóskastarann en hún fjallar um hina söngelsku dóttur Önnu Þóru, Ernu Kanemu og leit hennar að söngvum frá Sambíu, heimalandi föður síns. Um leið og Erna kemst í snertingu við uppruna sinn þá öðlast hún skilning á tónlistarhefð forfeðra sinna og tekur brot af henni með sér heim til Íslands.

Dómnefndin, sem samanstóð af Ragnari Bragasyni, Elísabetu Indru Ragnarsdóttur og Yrsu Roca Fannberg, hafði eftirfarandi að segja um verðlaunamyndina “Myndin hefur ríkt erindi við samtíma sinn, miðlar mikilvægum lífsgildum og fangar litróf þjóðarinnar. Sagan er sögð af mikilli hlýju og næmni og full af gleði.”

Dómnefndin tilnefndi einnig heimildamyndina Rjóma eftir Freyju Kristinsdóttur til sérstakra hvatningarverðlauna með eftirfarandi umsögn: “Klassísk saga af óréttlæti sem kemur þó sífellt á óvart og heldur manni föngnum frá upphafi til enda.”

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA