Sjálfstæði snýst um fjárhagslegan styrk og ábyrga stjórnun

Steinn Ingi Kjartansson.

BB fór á stúfana og spurði efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og bæjarstjóraefni, af hverju fólk ætti að kjósa það. Steinn Ingi Kjartansson er oddviti Hreppslistans í Súðavíkurhreppi og hans svar er á þessa leið:

„Eftir því sem íbúum sveitarfélaga fækkar, færast byrðarnar á færri herðar og hver einstaklingur verður mikilvægara lím í samfélaginu, umfram það sem algengast er í stóru þéttbýlissveitarfélögunum. Þess vegna eru allir mikilvægir í mínu sveitarfélagi, um það snýst framboð Hreppslistans í Súðavíkurhreppi meðal annars, allir skipta máli. Við viljum halda áfram farsælu starfi í sveitarstjórninni, með góðan stýrimann á dekkinu þar sem Pétur Markan sveitarstjóri er.

Samstarf meiri- og minnihluta á líðandi kjörtímabili hefur verið mjög gott og farsælt fyrir sveitarfélagið og vonandi verður það þannig áfram. Það er eitt það mikilvægsta fyrir sveitarfélög að málefnaleg umræða og niðurstaða í málum náist, svo orka og tími sveitarstjórnarmanna fari í gagnleg mál til hagsældar fyrir samfélagið, en ekki í upphrópanir og sleggjudóma á torgum. Um þetta eru margir reyndir sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið sammála að sé stórt atriði í góðri framþróun, hagsæld og sjálfstæði lítilla sveitarfélaga, samstaðan með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Annað atriði ekki síður mikilvægt litlu sveitarfélagi til að halda sjálfsstæði sínu er fjárhagslegur styrkur. Fjárhagur Súðavíkurhrepps stendur styrkum fótum í dag og er tilbúinn að takast á við þau fjárfreku uppbyggingarmál sem framundan eru í mörgum málum og þá sérstaklega atvinnuuppbyggingu í tengslum við uppbyggingu hafnarmannvirkja verði af byggingu Kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði sem góðar líkur eru á.

Málefnasvið sveitarfélaga er mjög víðfeðmt og því flest mál sem koma á borð sveitarstjórnar. Þar má nefna til nokkra málaflokka sem verða í brennidepli hjá Hreppslistanum, svo sem áframhaldandi innviðauppbygging, íbúðamál tengd málefnum aldraðra, fræðslumál, ljúka aðalskipulagsvinnunni, samgöngumál o.fl. o.fl.

Ég vil að lokum ljúka þessum orðum mínum með tilvitnun í orð John F. Kennidy með samsömun við okkur hér. „Við eigum ekki að spyrja að því hvað sveitarfélagið getur gert fyrir okkur, heldur hvað getum við gert fyrir sveitarfélagið.

Góðar stundir.“

Sæbjörg

sabjorg@bb.is

DEILA