Sigurður Ingi styrkir vetrarþjónustu á Ingjaldssand

Í fundargerð bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 14. maí, kemur fram að lagt hafi verið fram bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Bréfið fjallar um vetrarþjónustu á Ingjaldssandi í Önundarfirði, en ráðuneytið telur ekki forsendur til að rýmka gildandi þjónustureglur, sem þýðir að þau sjá ekki ástæðu til að bæta snjómokstur þangað á veturna.

Í bréfinu sem barst frá ráðuneytinu kemur fram að bæjarráð Ísafjarðarbæjar hafi bókað þann 26. mars að: „ráðið teldi óforsvaranlegt að ráðuneytið hefði ekki fjármuni til að sinna snjómokstri fyrir íbúa á lögbýlum.“ Svar ráðuneytisins var á þá leið að: „Ráðuneytið og stofnanir þess hafa fjárveitingar til tiltekinna verkefna eftir því sem Alþingi ákveður hverju sinni. Á grundvelli þeirra og að teknu tilliti til ýmissa reglna svo sem jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna er unnið úr þeim fjárveitingum eftir almennum reglum. Miðað við veittar fjárveitingar í dag eru því miður ekki forsendur til þess að rýmka gildandi þjónustureglur.“

Á þessum sama fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var einnig lagt fram bréf frá Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Þar tilkynnir ráðherra að hann hafi ákveðið að styrkja vetrarþjónustu á Ingjaldssand með 240 þúsund krónum sem renna af ráðstöfunarfé hans.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA