Rík áhersla lögð á samvinnu og samstarf umfram átök

Ásthildur Sturludóttir.

BB fór á stúfana og spurði efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og fólk í persónukjöri, af hverju aðrir ættu að kjósa það. Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóraefni Sjálfstæðismanna og óháðra í Vesturbyggð og hennar svar er á þessa leið:

„Ég hef verið bæjarstjóri Vesturbyggðar undanfarin átta ár og er bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokks og óháðra í Vesturbyggð fyrir kosningarnar sem fara fram nú um helgina. Ég hef átt gott samstarf með núverandi bæjarfulltrúum og tel að þeirra störf á undanförnum tveimur kjörtímabilum hafi skilað okkur einu lengsta tímabili í sögu Vesturbyggðar, þar sem rík áhersla hefur verið lögð á samvinnu og samstarf umfram átök. Með því nýja fólki sem kemur inn á listann vegna komandi kjörtímabils ná sjálfstæðismenn og óháðir að styrkja enn frekar sitt bakland og tefla fram nýju fólki í bland við reyndara sveitarstjórnarfólk. Með þessu fólki í forystu vil ég vinna áfram að framfaramálum fyrir Vesturbyggð, ásamt því frábæra starfsfólki sem hefur valið Vesturbyggð sem sinn vinnustað. Í minni tíð hefur mikil áhersla verið lögð á starfsmannamál. Við höfum lagt mikla áherslu á að styðja við aukna menntun starfsfólks og höfum staðið fyrir námsskeiðum og starfsdögum fyrir starfsfólkið og hvatt það til símenntunar.

Sveitarfélagið hefur sömuleiðis innleitt nýjar tæknilausnir, tekin hefur verið í notkun íbúagátt á heimasíðunni og ný, glæsileg og nútímaleg heimasíða verður opnuð í júní. Þá var nýtt bókhaldskerfi innleitt sem gerir alla fjármálastjórn skilvirkari og skjalastjórnunarkerfi uppfært. Þá hefur Vesturbyggð gefið reglulega út fréttabréf til upplýsingar fyrir íbúa. Á næstu misserum mun starfsemi bæjarskrifstofu verða flutt í nýtt ráðhús á Patreksfirði þar sem allir starfsmenn verða saman á einum stað í glæsilegum húsakynnum. Það er mikilvægara nú að efla byggðakjarnana og byggja upp þjónustu sveitarfélagsins á báðum stöðum, þá opnast ný tækifæri með ljósleiðaratenginu í dreifbýli. Vesturbyggð er með skrifstofuaðstöðu á Bíldudal og það er stefna sveitarfélagsins að starfsfólk geti verið með aðstöðu þar sem það kýs inn sveitarfélagsins.

Á síðustu 8 árum hefur íbúum fjölgað um 200. Þetta kallar auðvitað á miklar jákvæðar samfélagsbreytingar. Stefnuskrá framboðsins er að mínu viti bæði skynsamleg og raunhæf. Á undanförnum árum hefur verið lagður fjárhagslegur grunnur að því að hægt sé að framfylgja þeim stefnumálum sem þar eru sett fram og treysti ég því fólki sem stillt er upp til forystu á lista sjálfstæðisflokks og óháðra til að framfylgja henni á komandi kjörtímabili.

Það hefur verið áskorun að stýra Vesturbyggð á uppgangstímum og ég er þakklát fyrir það tækifæri sem ég hef fengið sl. 8 ár. Ég vona að mér verði treyst fyrir framkvæmdastjórn sveitarfélagsins næstu 4 árin og við stefnum ótrauð áfram til áframhaldandi uppbyggingar. Þannig að okkar góða samfélag sem er bæði ríkt af tækifærum og mannauði megi verða samkeppnisfært um íbúa til framtíðar.“

Sæbjörg
sabjorg@gmail.com

DEILA