Reykhólar auglýsa einbýlishúsalóðir

Reykhólar. Mynd: Árni Geirsson.

Í fundargerð sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 17. apríl síðastliðnum kemur fram að: „Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa til úthlutunar fimm einbýlishúsalóðir á Reykhólum, samkvæmt úthlutunarskilmálum.“ Í samtali við BB segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri að núna í vor hafi borist umsóknir um lóðir af þessu tagi. Sveitarstjórnin hafi þess vegna ákveðið að auglýsa fleiri lóðir sem eru inni á milli húsa í þorpinu en standa enn óbyggðar. Auglýsingarnar eru í vinnslu en Reykhólahreppur hefur tímabundið fellt niður gatnagjöld til að ýta undir og liðka fyrir hugsanlegum húsbyggjendum. „Þá hafa aðilar í hyggju að byggja tvö fjögurra íbúða raðhús, en það verkefni er enn í fjármögnun,“ segir Ingibjörg og bætir við: „Nokkur störf hafa skapast hjá Reykhólahreppi á síðustu árum og auk þess sem koma Saltverksmiðjunnar og breytingar hjá Þörungaverksmiðjunni hafa skapað þörf fyrir starfsfólk og húsnæði fyrir það. Þá vantar enn fólk í ýmis störf hér.“

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA