Nýr vegur yfir Dynjandisheiði í kortunum

Dynjandisheiði.

Þær gleðifréttir hafa borist, og sagt er frá á síðu mbl.is mánudaginn 28. maí, að Vegagerðin hafi sent Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun varðandi endurbyggingu Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg. Í þessari tillögu sem er þó aðeins gróf verklýsing, er lagt til að vegkaflinn frá Hörgsnesi í Vatnsfirði og langleiðina að Mjólkárvirkjun, verði endurbyggður. Þá er áætlað að Bíldudalsvegur verði endurbyggður frá Bíldudalsflugvelli að Helluskarði á Dynjandisheiði. Framkvæmdalýsingin sem og áhrifasvæði hennar eiga eftir að fara í umhverfismat en í því felst að kanna áhrif framkvæmdanna á friðlýst svæði, hverfisverndað svæði og svæði á náttúruminjaskrá. Áætlað er að nýji vegurinn muni fylgja þeim gamla að hluta til en fara á öðrum stöðum yfir ósnortin víðerni.

Hjá mbl.is kemur fram að: „Mesta breytingin á legu vegarins er í botni Trostansfjarðar en einnig eru breytingar í botni Fossfjarðar og Reykjarfjarðar. Endanleg ákvörðun um legu vegarins verður tekin í samráði við landeigendur, til dæmis þannig að hún hafi sem minnst áhrif á fyrirhugaða landnýtingu í Dufansdal, búskap og æðarvarp í landi Foss og upplifun gesta í Reykjafjarðarlaug í Reykjarfirði. Einnig munu niðurstöður fornleifarannsókna hafa áhrif á legu vegarins.“

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar lagði fram tölvupóst frá Vegagerðinni á fundi 28. maí. Þar kemur fram að Vegagerðin býðst til að kynna framkvæmdina í þeim tveimur bæjarfélögum sem framkvæmdin snertir, það er Vesturbyggð og Ísafjarðarbær. Þessi fundir yrðu á kynningatíma matsáætlunarinnar ef sveitarfélögin óska eftir því og tillaga bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var sú að fundurinn yrði haldinn 11. júní næstkomandi.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA