Nýr listi í Súðavík

Súðavík.

Í Súðavík hefur nýtt framboð litið dagsins ljós sem ber nafnið Víkurlistinn og hefur fengið listabókstafinn E. Það er Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir sem leiðir listann, en að auki prýða hann sex aðrir einstaklingar úr Súðavíkurhreppi. „Það er ríkt í okkur að vilja njóta lýðræðis og þegar við sáum fram á að það yrði bara einn listi í Súðavík ákváðum við að fara fram,“ segir Elsa í samtali við BB. „Fólk vill fá að kjósa og við viljum að fólk fái að kjósa til að lýðræði ríki. Við viljum líka sjá fjölbreytni og hérna er komið saman gott fólk.“

Víkurlistinn hefur enn ekki birt stefnuskrá en helstu áherslumál hans eru atvinnu-, samfélags- og samgöngumál. Ýmsar spurningar vöknuðu á norðanverðum Vestfjörðum þegar það spurðist út að bæði Elsa og annar frambjóðandi á E-listanum hefðu verið meðmælendur fyrir hinn framboðslistann í Súðavík. Elsa segir að þetta hafi vissulega komið upp og þess vegna hafi þau lagt kapp á að leita svara við því hvort þetta gengi upp. Svarið kemur hvergi fram í sveitarstjórnarlögum en kjörnefnd úrskurðaði framboðið löglegt. Eftirfarandi einstaklingar eru á framboðslista Víkurlistans með listabókstafinn E:

Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir, frumkvöðull
Karl Guðmundur Kjartansson, sjómaður
Jóhanna Kristjánsdóttir, bóndi
Arthúr R Guðmundsson, stálsmiður
Jónas Ó Skúlason, bílamálari
Þorbergur Kjartansson, veiðieftirlitsmaður
Árni Þorgilsson, sjómaður

Sæbjörg
sabjorg@gmail.com

DEILA