Lönduðu fyrstu verðlaununum í kvennaflokki í lengri tíma

Á heimasíðu Vestra kemur fram að stelpurnar í 9. flokki Vestra hafi lagt land undir fót nýlega þegar þær tóku þátt í stóru norrænu körfuboltamóti, Göteborg Basketball Festival. Þær gerðu sér lítið fyrir og sigruðu B-úrslit mótsins og tóku með sér glæsilegan bikar heim.

Yngvi Gunnlaugsson er þjálfari liðsins en hann var að vonum stoltur og ánægður með hópinn. „Þetta er einn okkar fjölmennasti hópur. Það er svo jákvætt fyrir félagið í heild sinni og okkur sem stöndum að körfunni að landa fyrstu verðlaununum í kvennaflokki í lengri tíma. Það gefur okkur byr undir báða vængi að kvennastarfið sé í jafnmikilli sókn og karlastarfið. Fyrir okkur sem félag er það mjög mikilvægt. Þetta er ungur hópur, stelpur í 8. og 9. bekk, en þær voru að keppa í árgangi fyrir ofan sig. Það var svo gaman að sjá hungrið sem stelpurnar sýndu eftir því sem leið á mótið. Þær fundu að þær áttu séns og gáfust ekki upp. Þetta var ekki auðvelt, en þær voru sér og sínum til mikils sóma.“

Yngvi gantast með það að þar sem Vestri sé aðeins tveggja ára félag í núverandi mynd, sé hægt að tala um að þetta sé fyrsti sigur Vestra á erlendri grundu. „Þegar ég kom byrjuðum við að vinna eftir þriggja ára áætlun, inni í því plani var að endurvekja meistaraflokk. Einnig vildum við vinna vel, þ.e. svo félagið sé ekki byggt á brauðfótum, það sé alltaf einhver sem tekur við þegar annar hættir. Það komi maður í manns stað. Ég er bjartsýnn á að það sé að takast.“

BB óskar þessum ungu, efnilegu stúlkum til hamingju með glæsilegan árangur.

Margrét Lilja

milla@bb.is

 

DEILA