Laxalús er vanmetin ógn

Þriðja bylgja laxeldis við strendur landsins hefur nú staðið yfir í um 9 ár á Vestfjörðum. Allt bendir til þess að laxalús muni valda einstökum fyrirtækjum verulegum búsifjum og kostnaði við lúsavarnir. Reynsla okkar nágrannaþjóða sýnir að afföll eldislaxa vegna ágangs laxalúsar sé á bilinu 5-20% og til viðbótar bætist umtalsverður kostnaður vegna lúsavarna. Í Noregi er áætlað að útgjöld vegna laxalúsar sé á bilinu 5-10 Nkr/kg (60-120 kr/kg), jafnvel meira.

Allra síðustu ár hefur yfirleitt dregið úr notkun lúsalyfja í nágrannalöndunum. Samdrátturinn er þó ekki í neinu samhengi við minni áþján frá laxalús, heldur er ástæðan einfaldlega aðlögunarhæfni lúsarinnar og aukið ónæmi gegn lyfjum. Því er nú gripið til annarra aðgerða, s.s. með því að nota hreinsifisk, setja lúsapils umhverfis eldiskvíar, gefa lúsaeitur í fóður og dæla fiski í skip með þvottatanka með heitu eða fersku vatni. Allt eru þetta dýrar lausnir sem hafa auk þess takmarkaða virkni. Hið jákvæða er hins vegar að slíkar vistvænar aðferðir hafa lítil umhverfisáhrif og hamla ekki umhverfisvottun fyrirtækja.

Allt stefnir í að sambærileg þróun verði hérlendis. Fyrirtæki í laxeldi munu þurfa að bera umtalsverðan kostnað vegna tjóns og lúsavarna þegar fram líða stundir. Samkvæmt lögum skal Matvælastofnun (MAST) veita stjórnvöldum ráðgjöf um varnir gegn útbreiðslu fisksjúkdóma og annað er lýtur að fisksjúkdómum. Varnir gegn sníkjudýrum telst hluti sjúkdómavarna, enda geta sníkjudýr borið bakteríur og veirur. Laxalús olli skaða á eldislaxi í fyrstu bylgju laxeldis á níunda áratugnum og síðan eru liðin um 30 ár. Lög um fiskeldi (nr 106/2008) og um sjúkdómavarnir (nr 60/2006) hafa verið endurskoðuð nokkrum sinnum á þessu tímabili. Aldrei hefur orðið sníkjudýr verið nefnt í samþykktum lögum um atvinnugreinina, sem bendir til að MAST hafi vanmetið ógnina sem fylgir laxalús. Það má t.a.m. sjá í því er stofnunin heimilaði að í Arnarfirði mætti ala lax á þremur árgangasvæðum, jafnvel þótt erlendir sérfræðingar hefðu ráðið sterklega gegn því. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um fiskeldi. Loksins hefur MAST rankað við sér, enda hefur lúsin valdið verulegum vanda í eldinu í Arnarfirði. Í frumvarpsdrögum er komið inn ákvæði um skyldur leyfishafa um talningu á laxalús og opinbera birtingu á niðurstöðum. Hins vegar er engin ákvæði að finna um fyrirbyggjandi varnir gegn laxalús sem gætu skapað forsendur fyrir sjálfbærni eldisins og samkeppnishæfari atvinnugrein. Það er e.t.v. skiljanlegt því MAST telur að mikill sjávarkuldi sé náttúruleg vörn gegn laxalús. Það er hins vegar ekki raunin í nyrsta fylki Noregs (Finnmörk) þar sem sjávarhitinn er sambærilegur og hér á landi. Eina varanlega lausnin gegn ágangi laxalúsar í Finnmörk er hvíld stærri eldissvæða og fjarðarkerfa. Reynsla þar hefur staðfest að sjávarkuldi skapar enga vörn gegn laxalús ef samfellt laxeldi er stundað hvíldarlaust. Sama niðurstaða er staðfest á Vestfjörðum.

Hvíld eldissvæða veldur því hins vegar að ekki er hægt að fullnýta burðarþol eldissvæða til framleiðslu. Til að fullnýta burðarþolið og stunda samfellt hvíldarlaust laxeldi er lokaður eldisbúnaður eina sjálfbæra lausnin. Ekkert í frumvarpsdrögum til breytinga á núverandi lögum um fiskeldi heimilar Hafrannsóknastofnun að eyrnamerkja tiltekna firði eða hluta af fjarðarkerfum fyrir lokaðan eldisbúnað. Slíkt ákvæði yrði til verulegra bóta á frumvarpinu. En hinsvegar er frumvarpið vanreifað í mörgum ákvæðum og afar æskilegt betur yrði staðið að löggjöf um atvinnugrein sem skiptir svo miklu fyrir landsbyggðina og ímynd landsins.

Jón Örn Pálsson

Ráðgjafi

DEILA