Ísafjarðarbær mætir Hafnarfirði í Útsvari

Mynd: Gylfi Ólafsson, Tinna Ólafsdóttir og Greipur Gíslason.

Í kvöld mun lið Ísafjarðarbæjar mæta liði Hafnarfjarðar í Útsvari í ríkissjónvarpinu. BB hafði samband við Gylfa Ólafsson til heyra hvernig keppnin legðist í liðið og hann svaraði kampakátur. „Keppnin leggst alveg svakalega vel í okkur. Við höfum fundið fyrir miklum stuðningi frá Ísfirðingum og nærsveitafólki og okkur hefur gengið miklu betur en við þorðum að vona,“ segir Gylfi. „En þetta verður erfitt í kvöld, Hafnarfjörður teflir fram firnasterku liði sem hefur mikla þekkingu og reynslu svo við munum þurfa að hafa okkur öll við.“

Liðið héðan að vestan hefur ekki mætt Hafnfirðingum áður en fylgdust með þeim í keppninni í fyrra og vita því hverju þau eiga von á. Með Gylfa í liðinu eru Tinna Ólafsdóttir, kona hans, og Greipur Gíslason, vinur þeirra. „Við höfum verið að rifja upp textann úr laginu Vinur Hafnarfjarðar með Dolla og Dengsa til að undirbúa okkur,“ segir Gylfi, „en þar segir einmitt að öld eftir öld hafi því verið spáð að Hafnarfjörður yrði frægastur allra fjarða.“ Það verður spennandi að sjá hvar frægðarsólin mun skína í kvöld og við óskum Gylfa, Tinnu og Greipi góðs gengis.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

DEILA