Gríman fellur

Framboðsfrestur til sveitarstjórnarkosninga er nú runninn út og kosningabaráttan að komast á fullt skrið. Að venju eru framboðin fjölskrúðug á Vestfjörðum. Allt frá hreinum framboðum stjórnmálaflokka til nýstofnaðra hópa sem vilja koma sínum stefnumálum á framfæri og til áhrifa. Frambjóðendurnir eru líka skemmtileg blanda. Frá ungum og óreyndum til Steins Inga Kjartanssonar, sem staðið hefur í stafni Súðavíkurhrepps, með einum eða öðrum hætti, frá því skömmu eftir miðja síðustu öld að því er sagt er. Í nokkrum sveitarfélögum eru síðan óhlutbundnar kosningar þar sem allir íbúar eru í kjöri.

Með tíð og tíma hefur löggjafinn bundið hendur sveitarstjórnarmanna með lögbundnum hlutverkum og er því sú kaka sem raunverulega er til skiptanna með ákvörðunum sveitarstjórnarmanna minni sem því nemur. Þá hefur löggjafinn einnig aukið rétt einstaklinganna gagnvart stjórnsýslu sveitarfélagsins hverju sinni. Með því hefur gefist færi á því að skjóta ákvörðunum til hinna ýmsu embætta og stofnana. Þessi réttur hefur á undanförnum árum oft og tíðum verið ofnotaður og misnotaður mjög í sumum tilfellum. Er nú svo komið, svo dæmi séu nefnd, að ekki hefur verið reist háspennulína á Íslandi í einn og hálfan áratug. Mörgum lífsnauðsynlegum framkvæmdum hefur verið haldið í gíslingu þrátt fyrir að vilji skipulagsyfirvalda, sem eru kjörnar sveitarstjórnir hverju sinni, hafi margoft komið fram. Í flestum tilfellum eru það ekki íbúar sveitarfélaganna sem stöðva mál heldur einstaklingar og félagasamtök sem engra hagsmuna eiga að gæta. Oftar en ekki er þetta gert í nafni náttúrverndar þrátt fyrir að oft hafi það aðeins verið gríma eigin hagsmuna.

Ekki hefur bætt úr skák að embættismenn stofnana virðast oft og tíðum rífa sig úr að ofan og hnykla vöðva þegar einföld og eðlileg mál koma til afgreiðslu sums staðar af landsbyggðinni. Þessi þörf á að sýna vald sitt kemur af einhverjum ástæðum ekki fram þegar svipuð mál koma til afgreiðslu í næsta nágrenni við umræddar stofnanir. Er því nú svo komið að hreint og klárt misrétti ríkir í landinu á milli landssvæða þegar kemur að framkvæmd skipulagsmála við uppbyggingu innviða og atvinnulífs.

Þessa sögu þekkjum við íbúar Vestfjarða betur en flestir aðrir. Þeim fjölgar líka brögðum sem beitt er til þess að koma í veg fyrir að vilji sveitarstjórna nái fram að ganga. Fyrir nokkru var gerð tilraun til þess að bera fé á Árneshrepp og Reykhólasveit ef það mætti verða til þess að breyta vilja sveitarstjórna þeirra í skipulagsmálum. Af einhverjum ástæðum hafa þessar tilraunir litla athygli vakið ráðandi fjölmiðla í landinu og ef eitthvað er hafa þær mætt skilningi frekar en eðlilegri hneykslan.

Þessi meðvirkni hefur eflt sjálfstraust þeirra er halda vilja skipulagsmálum á Vestfjörðum í gíslingu. Því hefur nú steininn tekið úr þegar þær fréttir berast úr Árneshreppi að síðustu daga fyrir útgáfu kjörskrár í sveitarfélaginu hafi íbúum þess fjölgað um tæp 40%. Mun þarna vera um að ræða andstæðinga hugmynda um bætt raforkuöryggi á Vestfjörðum með virkjun Hvalár. Virkjun sem sveitarstjórn Árnesshrepps hefur samþykkt. Með þessum flutningi andstæðinga virkjunar á íbúaskrá Árnesshrepps er ekki einungis verið að brjóta kosningalög og almenn hegningarlög. Það er gerð tilraun til þess að afnema í raun kosningarétt íbúa. Það hefur aldrei verið gert áður á Íslandi. Því miður er full ástæða til þess að óttast að viðeigandi stofnanir muni setja upp silkihanska þegar taka skal á þeim ganga fram. Um leið stórskaðast ósjóna raunverulegra náttúruunnenda.

Gríma þeirra er svona vinna er hins vegar fallin. Þessi grímulausa aðför að rétti íbúa í Árneshreppi er því nú öllum ljós og það eru í sjálfu sér góðar fréttir. Nú verður því auðveldara að greina á milli þeirra er standa með íbúum Vestfjarða í viðleitni þeirra til þess að byggja upp sjálfsagða innviði og halda áfram að þróa helsta atvinnuveg sinn frá örófi alda, að framleiða matvæli í sátt við náttúruna hverju sinni. Með lögum skal land byggja.

Stakkur

DEILA