Framboð sjálfstæðisflokks og óháðra býður upp á stöðugleika og reynslu

Fríða Matthíasdóttir.

BB spurði efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og fólk í persónukjöri, af hverju aðrir ættu að kjósa það. Fríða Matthíasdóttir er efsta kona á lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Vesturbyggð og hennar svar er á þessa leið:

„Ég hef starfað á vettvangi sveitarstjórnarmála undanfarin átta ár, lengst af sem forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð. Það hefur gefið mér tækifæri til að öðlast dýrmæta reynslu. Þá reynslu vil ég nýta til að vinna áfram að þeim brýnu verkefnum sem framundan eru, ásamt því góða fólki sem stendur að framboði sjálfstæðisflokks og óháðra í Vesturbyggð. Að framboðinu standa öflugir einstaklingar, fólk sem hefur reynslu af því að starfa í sveitarstjórnarmálum og nýtt fólk sem er reiðubúið að leggja sitt af mörkum til að byggja styrkar stoðir undir öflugt samfélag til framtíðar. Fólk með sterkar skoðanir og ólíkar skoðanir en ekki síst vilja og áræði til að nýta krafta sína í þágu samfélagsins. Við höfum lagt fram metnaðarfulla og vel ígrundaða stefnuskrá. Málefni sem varða samfélagið allt og leggja grunninn að áframhaldandi uppbyggingu í Vesturbyggð. Skilaboð okkar eru skýr og byggt á reynslu okkar af störfum fyrir sveitarfélagið undanfarin ár, þá treystum við okkur til að standa við þau. Við munum halda áfram þeirri vinnu sem við hófum á yfirstandandi kjörtímabili með reglulegu samtali við íbúa, með opnum íbúafundum og höfum sett okkur markmið um að nýta tæknina enn betur í þeirra þágu. Á kjördag fá íbúar Vesturbyggðar langþráð tækifæri til að hafa áhrif á hvernig næsta bæjarstjórn verður skipuð. Framboð sjálfstæðisflokks og óháðra býður upp á stöðugleika og reynslu. Við bjóðum fram öfluga forystusveit ásamt bæjarstjóraefni okkar Ásthildi Sturludóttur og erum óhrædd við að leggja okkar verk í dóm kjósenda.“

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA