Er meirihlutinn fallinn?

Daníel Jakobsson.

Öll þekkjum við umræðuna um meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn. Flokkar taka sig saman og mynda meirihluta eða þá að einn listi nær meirihluta og þarf ekki á slíku samstarfi að halda, líkt og staðan er núna í Ísafjarðarbæ.

Þótt það sé vissulega meginreglan að meirihlutar séu myndaðir viljum við sjálfstæðisfólk velta því upp hvort það sé skynsamlegt að meirihlutinn axli einn jafn mikla ábyrgð og raunin er. Er það gott fyrir bæjarbúa að endanlegar ákvarðanir um málefni bæjarins séu allar teknar á meirihlutafundum í stað þess að bæjarstjórn öll reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu?

Dýrar framkvæmdir í ósátt?

Ef við skoðum vinnu við fjárhagsáætlun bæjarins, sem er mikilvægasta verkefni bæjarstjórnar, þá hefur hún hin síðari ár verið afgreidd með atkvæðum meirihlutans og í einhverjum tilvikum atkvæðum Framsóknarflokksins. Aðrir bæjarfulltrúar hafa kosið að sitja hjá því þeir telja sig ekki hafa fengið að koma nægilega mikið að gerð áætlunarinnar til að leggja nafn sitt við hana.

Er það gott fyrir bæjarbúa? Er það líklegt til að skapa sátt og samfellu í starfi bæjarstjórnar? Væri ekki heppilegra að bæjarstjórn einbeitti sér að því að gera áætlun til nokkurra ára um fjármál bæjarins, og þá sérstaklega framkvæmdir, þar sem sjónarmið allra fá að heyrast? Niðurstaðan úr slíku samstarfi yrði málamyndun sem allir gætu unað við, stutt og fylgt eftir.

Finnst bæjarbúum það t.d. viðunandi að ákvarðanir um framkvæmdir upp á fleiri hundruð milljónir króna séu teknar í fullkomnu ósætti? Fimm með og fjórir á móti? Við teljum svo ekki vera.

Bæjarstjóri allra bæjarbúa

Eitt mikilvægasta verkefni næstu bæjarstjórnar verður að ná samstöðu um stóru málin og meginlínurnar. Bæjarstjórinn á ekki einungis að vera bæjarstjóri meirihlutans heldur á hann að hafa þroska og vilja til að hlusta á sjónarmið allra og taka tillit til þeirra. Hann á að vera bæjarstjóri allra bæjarbúa. Ef við í Sjálfstæðisflokknum fáum til þess umboð frá kjósendum eftir rúma viku verður það verkefni okkar númer eitt að vinna fyrir alla og hlusta á alla.

Daníel Jakobsson,

oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ

DEILA