Bylting í íþróttamálum

Aron Guðmundsson skipar 2. sætið hjá Í-listanum í Ísafjarðarbæ.

Í dag er hátíðisdagur hjá knattspyrnunnendum í Ísafjarðarbæ og nágrannasveitarfélögum þegar Vestri spilar sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu. Það þarf ekki að fjölyrða um erfitt tíðarfar síðustu vikur og við sem höfum brennandi áhuga á knattspyrnu höfum spurt okkur: Verður völlurinn tilbúinn? Það er ekkert launungarmál að aðstaða til knattspyrnuiðkunar í Ísafjarðarbæ er ekki í þeim gæðaflokki sem við viljum sjá og stenst engan veginn samanburð við ástand mála í þeim sveitarfélögum sem við viljum bera okkur saman við. Það sem mestu máli skiptir er að aðstaðan er ekki boðleg því góða starfi sem Vestri heldur úti. Innan skamms verður gjörbylting í öllu íþróttastarfi á Torfnesi.

Knattspyrnuhús rís

Þessi dagana eru verkfræðingar og starfsmenn bæjarins að kasta á milli hugmyndum um knattspyrnuhús á Torfnesi. Húsið – sem væntanlega verður stálgrindar- eða límtréshús – mun rísa, á því er enginn vafi enda er fjármagn fyrir knattspyrnuhús tryggt í fjárhagsáætlun. Vonir standa til að húsið verði pantað þegar líður á árið og strax í lok sumars eða í haustbyrjun er stefnt á jarðvegsframkvæmdir og uppsteypu á sökklum.

Fyrirmyndarvinna Vestra

Í síðustu kosningum og í upphafi kjörtímabils var knattspyrnuhús ekki ofarlega á óskalista Í-listans. Stór og fjárfrek viðhalds- og umhverfisverkefni blöstu við okkur og ekki var talið forsvaranlegt að lofa knattspyrnuhúsi á kjörtímabilinu. Með góðum rekstri síðustu ár hefur Ísafjarðarbær getu til að ráðast í svo metnaðarfullt verkefni. Framlag Vestra til málsins verður seint fullþakkað. Árið 2015 skipaði Vestri starfshóp sem fór yfir byggingu knattspyrnuhússins frá öllum sjónarhornum. Vönduð skýrsla Vestra um málið var bæjaryfirvöldum mikilvægt leiðarljós til að vinna málið áfram og nú erum við komin á þann stað að strax á næsta ári verður farið að æfa í nýju húsi.

Gjörbreytir landslaginu

Húsið mun gjörbreyta landslagi íþróttamála í sveitarfélaginu. Þegar knattspyrnuæfingar að vetrarlagi flytjast úr íþróttahúsinu á Torfnesi í knattspyrnuhúsið losna umsetnir tímar í íþróttahúsinu fyrir iðken-dur annarra íþrótta. Og er þá ótalin sú gjörbreyting fyrir knattspyrnufólk að komast af hörðu parketti á nútímalegt gervigras í skjóli fyrir veðri og vindum.

En betur má ef duga skal. Í upphafi greinar vék ég að ástandi Torfnesvallar. Hann er fyrir löngu kominn á tíma og allir vita að það krefst mikils úthalds og hagstæðra veðurskilyrða að halda úti grasvelli hér á þessu svæði. Því segjum við í Í-listanum að við skulum róa öllum árum að því að leggja gervigras á keppnisvöllinn á Torfnesi þannig að völlurinn nýtist til fullnustu sem æfinga- og keppnisvöllur.

Aron Guðmundsson

Höfundur skipar 2. sæti Í-listans í Ísafjarðarbæ

DEILA