Vorþytur Lúðrasveita Tónlistarskóla Ísafjarðar

Vortónleikaröð Tónlistarskóla Ísafjarðar hefst miðvikudagskvöldið 2. maí, með hinum árlega VORÞYT, en þá blása lúðrasveitir tónlistarskólans vorið í bæinn. Tónleikarnir verða haldnir í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Á tónleikunum koma fram tvær lúðrasveitir: Skólalúðrasveit T.Í., sem skipuð er nemendum skólans, og Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem er skipuð blásurum á ýmsum aldri. Dagskráin á tónleikunum er mjög fjölbreytt og munu m.a. hljóma lög eftir George Michael, Paul McCartney, Bryan Adams og Bee Gees í útsetningu Madisar Mäekalle.
Lúðrasveitirnar skipa mikilvægan sess í starfi Tónlistarskólans og taka virkan þátt í atburðum og uppákomum í Ísafjarðarbæ. Undanfarnar vikur hafa sveitirnar komið víða við og m.a. leikið við opnun Skíðavikunnar, á árshátíð Ísafjarðarbæjar og að sjálfsögðu munu þær vera í broddi fylkingar þann fyrsta maí.

Tónleikarnir verða sem áður sagði í Hömrum og hefjast þeir kl. 20:00. Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.000 kr. en ókeypis fyrir börn á grunnskólaaldri.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA