„Vissi ekki alveg hvort ég ætti að vera brjáluð af pirringi eða hlátri“

Óli Björn, Vigdís Pála og Ronja. Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Á dögunum tóku eflaust einhverjir eftir því þegar ung kona á Ísafirði auglýsti eftir silfurlituðum RAV á facebook, sem lagt hafði verið fyrir utan Gamla Bakaríið um miðjan laugardag. Bað hún fólk að deila færslunni, þar sem hún þyrfti nauðsynlega að finna eiganda bílsins. Skemmtilegar umræður sköpuðust um þessa færslu en BB hafði samband við ungu konuna, Vigdísi Pálu Halldórsdóttur, til að heyra meira um málið.

„Við höfðum fengið frænku mína, Önnu Katrínu, til þess að passa litlu stelpuna okkar hana Ronju, á meðan við fórum á fund.“ Segir Vigdís Pála og á þá við sig og Óla Björn, sambýlismann sinn. „Óli fór með Ronju inn í Gamla Bakaríið og færði síðan barnavagninn og allt dótið hennar Ronju yfir í bílinn hennar Önnu Katrínar. Rúmlega 40 mínútum síðar kemur Anna Katrín inn á fundinn og spyr Óla hvar hann hafi sett vagninn, því hún fann hann ekki.“ Vigdís Pála segir að þá hafi Óli sagt að allt dótið væri í bílnum hennar og vagninn í skottinu. „Anna Katrín fór þá bara að hlæja og sagðist viss um að hann væri ekki þar, því hún hefði kíkt í skottið. Hún spurði þá Óla hvort hann hefði sett dótið í vitlausan bíl.“ Vigdís Pála bætir við að þá hafi hún munað eftir því að hafa séð tvo alveg eins bíla fyrir utan Bakaríið. „Ég vissi ekki alveg hvort ég ætti að vera brjáluð af pirringi eða hlátri“, segir Vigdís og talar um að þau hafi í kjölfarið auglýst eftir bílnum á facebook.

Þau ákváðu að aka um bæinn og athuga hvort þau sæju nokkuð bílinn, því þau mundu ekki bílnúmerið og vissu ekki alveg hvar þau áttu á byrja. „Við keyrðum bara um í leit að silfurlituðum bílum. Eftir smá stund hafði frændi minn samband og sagðist hafa verið í bakaríinu á silfurlituðum RAV á þessum tíma.“ Vigdís Pála bætir við að frændinn hafi í kjölfarið kíkt í bílinn og fundið þar barnavagninn. „Hann er búsettur á Þingeyri“, segir Vigdís Pála en bætir við að sem betur fer hafi hann ekki verið lagður af stað heim, svo þau hafi getað sótt vagninn. „Það er mikið búið að hlæja að þessu í kringum okkur“ segir þessi unga hressa kona um ævintýri helgarinnar.

Margrét Lilja
milla@bb.is

DEILA