Ung fjölskylda tekur fyrstu skóflustunguna að nýju einbýlishúsi

Fyrsta skóflustungan. Á myndinni eru Sveinn Ingi Guðbjörnsson, Högni Gunnar Pétursson, Halldór Ingi Högnasson og Sigríður Halla Halldórsdóttir.

Sá gleðilegi atburður átti sér stað föstudaginn 13. apríl síðastliðinn, að fyrsta skóflustungan var tekin að nýju einbýlishúsi, sem á að rísa að Ártungu 1 á Ísafirði. Í samtali BB við Svein Inga Guðbjörnsson, hjá Vestfirskum Verktökum, kemur fram að þetta séu merkileg tíðindi enda langt síðan byrjað var á grunni einbýlishúss síðast á svæðinu. „Þetta er eitt af fyrstu húsunum í langan tíma, líklega eru komin um 10 ár síðan síðast var tekinn sökkull fyrir húsi. Svo er líklega annar aðili sem er að fara af stað í sama hverfi.“

Högni Gunnar Pétursson og Sigríður Halla Halldórsdóttir eru unga parið sem stendur í því að byggja sér framtíðarheimili. Högni starfar sem vélvirki og vinnur í Vélsmiðjunni Þrym og Sigríður vinnur hjá Búsetuþjónustu fatlaðra hjá Ísafjarðarbæ. Þau eiga einn son, Halldór Inga, sem er nýlega orðinn eins árs gamall og von er á fjölgun í fjölskyldunni í byrjun ágúst. En hvað kom til að þau ákváðu að ráðast í að byggja hús: „Við vorum búin að vera að skoða fasteignamarkaðinn hér heima og framboðið var ekki mikið af einbýlishúsum. Mörg húsanna sem komu á markað voru kannski 30 til 40 ára gömul og eins og eðlilegt er þörfnuðust þau mikils viðhalds á næstu árum. Þá breytinga eins og nýrra innréttinga og fleira. Við fórum þá að skoða þann kost að byggja hús og fannst okkur ekki miklu muna í kostnaði eftir útreikninga, með þær kröfur sem við höfðum.“ Sigríður Halla bætir við að það hafi enn fremur ýtt undir ákvörðun þeirra að byggja hús, þegar bæjarstjórn Ísafjarðar tók þá jákvæðu ákvörðun að bjóða nokkrar lóðir án gatnagerðargjalda. „Þetta hvetur til húsbygginga,“ segir Sigríður Halla, en þau Högni sóttu um og fengu lóð að Ártungu 1 síðasta sumar.

Sigríður Halla segir að hingað til hafi ferlið gengið mjög vel. „Við hittum arkitekt í ágúst í fyrra, sem hannaði húsið fyrir okkur algjörlega eftir okkar hugmyndum. Við fengum teikningarnar í hendurnar fljótlega eftir áramót og svo hafa seinustu burða- og lagnateikningar frá verkfræðingum borist síðasta mánuðinn.“ Eftir áramót hefur parið aðallega verið í því að kanna verð og fá tilboð frá byggingaverktökum, rafvirkjum og fleirum. „Við gerðum samning við Vestfirska Verktaka, sem eru yfir verkefninu,“ segir Sigríður Halla, „þeir sjá um að steypa sökkla og klára plötu, ásamt pípurum og rafverktökum, en Barði Önundarson annast uppgröft. Fyrsta skóflustungan var tekin núna 13. apríl og byrjað er að grafa fyrir sökklum.“

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA