Sumar í Óperuhúsinu í Sydney

Háskólasetrið er til húsa í Vestra á Ísafirði.

Gestur Vísindaports er að þessu sinni Arnþrúður Gísladóttir, doktorsnemi í verkfræði. Sumarið 2015 dvaldist hún í Sydney í Ástralíu, sem ein af fimm hæfileikaríkum nemum í byggingartengdum greinum við danska háskóla, sem valdir voru til að taka þátt í verkefninu MADE by the Opera House. Arnþrúður verður viðloðandi verkefnið næstu fimm árin, þar til Óperuhúsið í Sydney fagnar fimmtugsafmæli sínu. Arnþrúður mun fjalla um tilurð og sögu þessarar þekktu byggingar og segja fra einstakri upplifun sinni sem þáttakandi í MADE verkefninu.

Arnþrúður Gísladóttir fæddist á Ísafirði árið 1987. Hún stundaði nám við Menntaskólann á Ísafirði og var um árabil þverflautunemandi í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Hún lauk BA námi frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2009. Þá hóf hún nám í byggingarverkfræði við Árósaháskóla þar sem hún lauk meistaranámi árið 2016.

Meðfram tónlistarnáminu starfaði Arnþrúður sem þverflautukennari og að loknu bakkalárnámi í verkfræði árið 2013, vann hún hjá verkfræðistofunni Inuplan í Qaqortoq á Grænlandi. Arnþrúður býr í Árósum og er doktorsnemi í verkfræði við Árósaháskóla.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Allir velkomnir.

DEILA