Stuðla að umhverfisvernd með viðgerðum

Hér má sjá ruslahaug af biluðum raftækjum.

Á Akureyri hefur hópur fólks tekið sig saman á vinnustofu til að starfa í anda verkefnis sem kallast Restart. Verkefnið, sem á upphaf sitt að rekja til London, felst í því að sjálfboðaliðar sem eru lunknir í viðgerðum á raf- og rafeindatækjum hjálpa þeim sem sækja vinnustofurnar að laga minniháttar bilanir í tækjunum. Allt er þetta án endurgjalds. Verkefnið er rekið sem góðgerðastarfssemi með styrkjum frá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum.

Þau Hildur Dagbjört Arnardóttir, sem stundum er kennd við Gróanda, og Þórarinn Bjartur Breiðfjörð, sem sér um FAB-LAB á Ísafirði, hafa tekið höndum saman til að opna samskonar vinnustofur í FAB-LAB í MÍ. „Aðalmarkmiðið er að gera við lítil raftæki en fólki er frjálst að koma með ýmis verkefni. Varðandi stærð tækjanna þá er miðað við að hægt sé að halda á þeim með annarri hendi,“ segir Þórarinn Bjartur í samtali við BB. „Við erum að leita að fólki sem langar að hjálpa okkur við að skipuleggja vinnustofurnar og við erum líka að leita að laghentum einstaklingum sem geta hugsað sér að hjálpa öðrum við viðgerðir. Á Akureyri eru vinnustofurnar haldnar einu sinni í mánuði og ég hugsa að við fylgjum svipuðu sniði.“

Á vefsíðu Restart á Akureyri er hægt að sjá hversu margir mæta í hverja vinnustofu, hversu mörg raftæki tókst að gera við og hversu mörg voru úrskurðuð látin, svo eitthvað sé nefnt. Þar má einnig lesa um hugmyndafræðina á bak við verkefnið sem er í stuttu máli þessi: „Restart verkefnið vinnur bæði að umhverfisvernd og einnig gegn sívaxandi tilhneigingu raftækjaframleiðenda til að gera vörurnar sínar úreltar til að þrýsta á viðskiptavini að endurnýja.“.

Raftækjaruslahaugurinn í veröldinni stækkar ört og tvöfaldaðist á árunum 2009-2014. Verkefni eins og Restart stuðlar þess vegna að umhverfisvernd, auk þess að vera skemmtileg samkoma fyrir alla þá sem vilja lengja líftíma tækjanna sinna. Ef fólk hefur áhuga á að leggja hönd á plóg í Restart þá er hægt að mæta á stuttan skipulagsfund í FAB-LAB Menntaskólanum, mánudaginn 9. apríl kl 17-18, eða einfaldlega hafa samband við Þórarinn í gegnum síma eða tölvupóst, sem eru: 8960926 eða fablabisafjordur@gmail.com. Viðburðurinn sjálfur verður haldinn í fyrsta skiptið í FAB-LAB á Ísafirði þann 11. apríl kl 18.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA