Skemmtilegast að safna rekavið

Birkir tók þátt í björgunarstörfum í Stóru-Ávík.

Birkir Atli Einarsson er 18 ára drengur úr Reykjavík sem stundar nám í fjallamennsku í framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu. Hann hefur nokkuð sterka tengingu að Melum í Árneshreppi á Ströndum, en hann hefur komið þangað í sveit síðan hann var þriggja ára gamall. Síðan hefur hann komið þangað nokkuð reglulega og m.a. mætt í sauðburð síðustu 5-6 vorin og smalamennskur á haustin til að hjálpa til. Birkir Atli sagði í samtali við blaðamann bb.is að hann hafi alltaf haft gaman af því að vera úti og ganga á fjöll. Í sveitinni finnst honum skemmtilegast að taka á móti lömbunum í sauðburði og safna rekaviðnum fyrir veturinn, en á Melum er húsið kynt með rekavið.

Birkir var síðast staddur í Árneshreppi um páskana og tók þá þátt í björgunaraðgerðum í Stóru-Ávík, þar sem bjarga þurfti tveim mönnum sem höfðu lent í ógöngum og sjálfheldu: „Það var sem sagt þannig að Badda og Björn voru ekki heima. Badda hringir í gsm-símann minn klukkan sirka hálf níu um morguninn og segir mér að það sé björgunarsveitarútkall. Við vissum mjög lítið, gerðum okkur bara tilbúin, fórum út í björgunarsveitarhús að sækja búnað og keyrðum svo út að Stóru-Ávík. Þegar við komum þangað sáum við þarna tvo menn fasta neðst í klettunum og ég var látinn síga niður klettinn og festa lykkju utan um þá, þannig það væri hægt að hífa þá upp.“ Birkir sagði að björgunarstarfið hefði gengið frekar vel. Hann segist líka hafa lært margt í fjallamennskunáminu sem kom að góðum notum í þessum aðstæðum.

Aðspurður hvað það sé sem heilli við Árneshrepp stendur ekki á svari: „Það er náttúrulega bara fólkið, það er gaman að allir þekkja alla. Allir hjálpast að. Og ætli það sé ekki bara fjarlægðin frá öllu, hvað maður lifir í núinu þegar maður er þarna,“ segir Birkir sem segist næst ætla að skella sér í Árneshrepp þegar sauðburðurinn byrjar.

Dagrún Ósk

DEILA